Aðgerðir til að draga úr kynjamisrétti

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 13:59:33 (1487)


[13:59]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir ):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þál. um sérstakar aðgerðir til að draga úr kynjamisrétti og til að bæta stöðu foreldra á vinnumarkaðnum. Flm. ásamt mér eru þingkonurnar Kristín Einarsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á fót nefnd sem móti markvissar tillögur og geri áætlanir um nauðsynlegar aðgerðir til að draga úr kynjamisrétti og bæta stöðu foreldra á vinnumarkaðnum, með sérstöku tilliti til foreldra ungra barna. Tillögurnar nái jafnt til ríkiskerfisins, sveitarfélaga, sem og hins almenna vinnumarkaðar. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar kvennasamtaka, ríkis og sveitarfélaga, Jafnréttisráðs og aðila hins almenna vinnumarkaðar.``
    Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:
    ,,Tillaga þessi er nú lögð fram í þriðja sinn.
    Staða íslenskra kvenna hefur breyst mikið ef horft er svo sem 100 ár aftur í tímann. Þjóðfélagsbreytingar og barátta kvenna fyrir almennum mannréttindum hafa fært konum lagalegt jafnrétti á flestum sviðum. Möguleikar kvenna til að afla sér menntunar og til að sjá sér og sínum farborða hafa batnað verulega á þessari öld. Við búum þó enn við misrétti á ýmsum sviðum. Þjóðfélag okkar er mótað af aldagömlum hugsunarhætti karla og stofnana karlveldisins. Enn búum við í karlstýrðu þjóðfélagi þar sem allar helstu valdastöður eru ,,mannaðar`` körlum. Enn er mikið verk að vinna til að staða kvenna geti talist góð og samskipti kynjanna með viðunandi hætti.
    Í rúmlega 300 ár hefur það verið ríkjandi stefna fremstu hugsuða og margra stjórnmálahreyfinga á Vesturlöndum að vinna að sem mestum jöfnuði þegnanna, sem mestri hamingju og sem mestum áhrifum hvers og eins á eigið líf og mótun samfélagsins. Lengi vel náði þessi hugmyndafræði aðeins til vel stæðra hvítra karlmanna, en smátt og smátt var látið undan kröfum þeirra sem knúðu á um aukinn rétt verkamanna, svertingja og loks kvenna.
    Rótgrónar en um margt úreltar hugmyndir, sem liggja að baki kristni og kirkju, stjórnarháttum, hernaðarbrölti, stéttaskiptingu, forréttindum, hlutverkum kynjanna, svo og hugmyndir um karlmennsku og kvenleika, lifa góðu lífi í okkar hugmyndaheimi. Seint gengur að breyta þeim, enda oft miklir hagsmunir í húfi. Því er það sem kvennalistakonur hafa lagt mikla áherslu á nauðsyn hugarfarsbyltingar til að takast megi að jafna stöðu kynjanna.
    Hægt er að beita margvíslegum aðgerðum til að breyta hugarfari. Það má gera með umræðum, rannsóknum, markvissum aðgerðum og eflingu réttlætiskenndar hvers og eins. Þegar kemur að veruleikanum sjálfum, hinu daglega lífi, er röðin komin að stjórnvöldum, aðilum vinnumarkaðarins, fjölskyldufeðrum, eiginmönnum og konum sjálfum sem vita best hvar skórinn kreppir. Það má ekki bíða lengur að

grípa til aðgerða til að draga úr því óþolandi misrétti sem einkennir íslenskan vinnumarkað og bitnar fyrst og fremst á konum. Stjórnvöld eiga að beita tiltækum ráðum til að jafna stöðu þegnanna og hafa almannahag að leiðarljósi. Aðilar vinnumarkaðarins, sem hafa með samningum sínum mikil áhrif á daglegt líf fólks og aðstæður fjölskyldnanna í landinu, þar með talið stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum, eiga að semja um aukinn jöfnuð. Samtökum kvenna í landinu verður að gefast kostur á að ræða beint við fulltrúa þeirra sem geta beitt sér fyrir breytingum og hafa vald til að koma þeim á þannig að hugmyndir og kröfur kvenna komist milliliðalaust á framfæri jafnframt því sem knúið verði á um aðgerðir.
    Þótt margt megi segja um nauðsyn almennrar hugarfarsbyltingar í íslensku samfélagi til hagsbóta fyrir konur og börn er misréttið mest á vinnumarkaðnum. Það er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af vaxandi launamun kynja og ,,kvengervingu`` fátæktarinnar sem lýsir sér í því hve stór hópur kvenna vinnur fyrir launum sem verða að teljast við eða undir fátæktarmörkum. Þær upplýsingar, sem birtar voru sl. sumar um launamun kynja hér á landi, sýna að bilið milli kvenna og karla fer vaxandi. Það er öfugþróun sem verður að stöðva. Þá er atvinnuleysi vaxandi í röðum kvenna og fleiri konur verða því að bráð en karlar hér á landi. Einnig ber að nefna þær aðstæður sem þjóðfélagið býður barnafjölskyldum upp á, einkum þar sem ung börn eru á heimilum.
    Þrátt fyrir lög um sömu laun fyrir sömu vinnu frá árinu 1960 og margendurskoðuð lög um jafnrétti kynja blasir sú staðreynd við að launamunur kynja hér á landi er verulegur. Heildartekjur kvenna í fullu starfi eru aðeins um 60% af heildartekjum karla. Skortur er á dagvistun fyrir börn, einkum í þéttbýlinu. Þar hefur hvergi nærri verið komið til móts við þarfir foreldra eða vinnumarkaðarins. Skóladagur barna er ekki í neinu samræmi við vinnutíma foreldra, þótt nú hilli loks undir átak í þeim efnum. Vinnumarkaðinn skortir átakanlega sveigjanleika, t.d. hvað varðar vinnutíma, og aðbúnaður á vinnustöðum, einkum með tilliti til heilsufars, má víða batna. Þannig mætti lengi benda á aðgerðir sem bætt geta daglegt líf, dregið úr misrétti og gert samfélagið betra.
    Með þessari tillögu er lagt til að skipuð verði nefnd sem komi með markvissar tillögur um aðgerðir til að draga úr misrétti kynja á vinnumarkaðnum og til að bæta stöðu barnafjölskyldna. Sem dæmi um nauðsynlegar aðgerðir á vinnumarkaðnum má benda á eftirfarandi:
    1. Tryggja þarf að jafnréttislögunum sé framfylgt og þau virt.
    2. Grípa þarf til aðgerða til að draga úr launamisrétti. Þar er efst á blaði nýtt starfsmat sem tekur tillit til mikilvægis starfa kvenna og metur uppeldis-, umönnunar- og þjónustuþætti hefðbundinna kvennastarfa sérstaklega og hefur að markmiði að bæta kjör kvenna.
    3. Skattkerfinu verði breytt þannig að tillit verði tekið til þess kostnaðar sem því fylgir að eiga og ala upp börn.
    4. Áætlun verði gerð um að fullnægja þörfinni fyrir dagvistun barna.
    5. Samræmi verði komið á milli skóladags barna og vinnutíma foreldra.
    6. Vinnumarkaðurinn bjóði upp á sveigjanlegan vinnutíma.
    7. Unnið verði að jöfnun foreldraábyrgðar utan sem innan heimilis.
    8. Aðbúnaður á vinnustöðum verði bættur með tilliti til heilsufars, afkasta og vinnuanda.
    9. Gripið verði til aðgerða til að breyta hugarfari karla í garð kvenna í þeim tilgangi að útrýma rótgrónum fordómum og sjálfsvitund kvenna styrkt, t.d. hvað það varðar að meta störf sín til launa.
  10. Grípa þarf til aðgerða til að auka hlut kvenna í stjórnarstörfum, nefndum og ráðum, ekki síst þar sem vinnumarkaðurinn á í hlut.
  11. Styrkja þarf framboð á endurmenntun og fullorðinsfræðslu.
  12. Sérstökum aðgerðum verði beitt til atvinnusköpunar fyrir konur.
  13. Auka þarf vitund um kynferðislega áreitni á vinnustöðum í því skyni að koma í veg fyrir slíkt.
  14. Auðvelda á feðrum að taka fæðingarorlof.
  15. Koma þarf í veg fyrir launaleynd og vinna að því að hækka grunnlaun þannig að ekki sé samið um ýmiss konar launauppbætur sem einkum koma körlum til góða.
  16. Taka þarf á rótgrónum hugmyndum um hlutverk karla og kvenna með fræðslu, áróðri og umræðum.
  17. Auka þarf rannsóknir á vinnumarkaðnum með tilliti til stöðu kynjanna.
  18. Fyrirtæki og stofnanir eigi kost á ráðgjöf þegar tekið verður á hvers kyns misrétti á vinnustað.
  19. Bannað verði að afla persónulegra upplýsinga um starfsmenn sem ekkert koma starfinu við, en þær eru iðulega notaðar gegn konum.
    Það er von flutningsmanna að sú nefnd, sem hér er lagt til að sett verði á fót, geti ýtt undir umræður í þjóðfélaginu jafnframt því sem hún setur fram raunhæfar tillögur sem orðið gætu til þess að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðnum. Það er löngu viðurkennt að aukinn jöfnuður skilar sér í betra samfélagi fyrir alla. Nú á ári fjölskyldunnar er kjörið tækifæri til að stíga skref sem bætt geta stöðu kvenna er munu um leið bæta hag fjölskyldnanna.``
    Virðulegi forseti. Þar með lauk greinargerðinni með þessari þáltill. Það er ástæða til að bæta því við að í ýmsum löndum heims hefur verið gripið til sérstakra aðgerða til þess að bæta stöðu kvenna. Ef ég tek Norðurlöndin sem dæmi þá hefur verið beitt því kerfi þar að koma á kvótum bæði hjá ríkinu og eins hafa stjórnmálaflokkar tekið upp þá reglu að hafa kvótakerfi þó að það nái alls ekki til allra í þeim tilgangi fyrst og fremst að jafna stöðu kynjanna og þetta hefur skilað konum miklum árangri.
    Þá má nefna aðgerðir sem snúa að starfsmati sem fram hefur farið á vinnumarkaðnum og hefur haft það að leiðarljósi að bæta fyrst og fremst launakjör kvenna. Þá má nefna það að á Norðurlöndunum er verkalýðshreyfingin miklu virkari í umræðum um launajöfnuð en hér og hefur beitt sér þar miklu meira í þágu kvenna en við því miður höfum séð hér þó að reyndar sé á Norðurlöndunum mikil umræða um það hvort sú stefna sem þar hefur verið tekin í samningamálum að dreifa samningavaldinu sé ekki einmitt að snúast konum í óhag.
    Þá er ekki síst að nefna það að á Norðurlöndunum er aðstoð við fjölskyldur og það öfluga félagslega kerfi sem þar er að finna gagnast konum miklu betur en það sem við þekkjum hér.
    Ef við lítum á Evrópubandalagið þá verður ekki sagt að það sé sérstaklega kvenvinsamlegt eða konur séu þar áberandi en þó eru þess dæmi að þar hafa fallið dómar, t.d. í launamálum kvenna, og þar hefur oft verið tekið dæmið um Danfoss-dóminn þar sem Danfoss-fyrirtækið var dæmt til þess að endurskoða algerlega sitt launakerfi til þess að koma á launajafnrétti. En sá dómur er ekki bindandi fyrir önnur fyrirtæki og fólk verður einfaldlega að fara í mál fyrir Evrópudómstólnum ætli það að koma á launajafnrétti. Eftir því sem ég best veit þá eru í gildi sex tilskipanir af þeim tugþúsundum tilskipana Evrópubandalagsins sem snerta konur sérstaklega.
    Í Bandaríkjunum hafa konur líka náð nokkrum árangri og þá ekki síst í því að fá það viðurkennt að það þurfi að taka tillit til kvenna sérstaklega. Þetta kemur m.a. fram í því að vinnumálaráðuneytið í Bandaríkjunum, sem kannski jafngildir íslenska félmrn., er með sérstaka kvennadeild sem reyndar hefur verið starfandi frá því á þriðja áratugnum og er nú undir stjórn Clintons að verða býsna öflugt baráttutæki fyrir konur.
    Sama gildir um heilbrrn. Þar er sérstök kvennadeild. Enda hefur komið í ljós að það veitir ekki af að horfa á heilsu og heilbrigði kvenna sérstaklega og hefur reyndar kallað á að það þarf að byrja rannsóknir á sjúkdómum og meðferð sjúkdóma nánast upp á nýtt.
    Í Bandaríkjunum er í gildi löggjöf sem skyldar fyrirtæki til þess að ráða jafnt konur og karla, hvíta og svarta o.s.frv. og því er fylgt eftir að sú löggjöf sé virt. Og eins er það í Bandaríkjunum að þar er bannað að vera að gramsa í persónulegum högum fólks. Það er ekki leyfilegt að spyrja persónulegra spurninga m.a. hversu mörg börn fólk á og hvort líklegt sé að um veikindi barna verði að ræða og slíkt, það er einfaldlega bannað. Það kemur málinu ekkert við og þyrfti að koma slíkum sjónarmiðum á framfæri við íslenska vinnuveitendur.
    Þá er líka að nefna það að í Bandaríkjunum er í gangi mikil vinna á vegum vinnumálaráðuneytisins til þess að ýta undir það að konur séu ráðnar í hærri stöður, einkum hjá stórfyrirtækjum. Það er sérstök aðgerð í gangi og hún birtist m.a. í því að fulltrúar ráðuneytisins fara í fyrirtæki og spyrja þar hvernig stendur á því að ástandið er svona og svona hjá ykkur og hvað ætlið þið að gera til að framfylgja lögum. Væri nú ekki síður gaman að sjá jafnréttislöggjöfinni íslensku framfylgt með þeim hætti.
    Ef við lítum aðeins á ástandið hér þá er það því miður ekki nógu gott. Við höfum hér löggjöf, ekki vantar það, en henni er einfaldlega ekki framfylgt. Eins og kom fram í greinargerðinni hefur það gerst að atvinnuleysi hefur farið vaxandi á undanförnum árum og það er meira í röðum kvenna en karla án þess þó að gripið hafi verið til sérstakra aðgerða sem eru konum í hag. Og í rauninni höfum við séð ákaflega lítið af aðgerðum stjórnvalda í þágu kvenna. Því miður virðist íslensk verkalýðshreyfing alls ekki hafa áttað sig á því að konur eru helmingur vinnuaflsins og hún hefur ekki rekið neina stefnu í þá veru að bæta kjör kvenna sérstaklega þannig að hér þarf að taka á, virðulegi forseti. Það er augljóst mál að nefnd af þessu tagi sem hér er lögð til getur auðvitað fyrst og fremst komið með tillögur og orðið til þess að ýta undir umræðuna, ýta á það að lögum sé framfylgt, en síðan reynir á vilja bæði vinnumarkaðarins og stjórnvalda til þess að koma hér á raunverulegu jafnrétti kynjanna.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn.