Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 15:40:25 (1501)


[15:40]
     Flm. (Guðni Ágústsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Minni manna er nú misjafnt og nær oft ekki langt aftur í tímann. Við minnisleysi bætist oft líka reynsluleysi og það vill nú svo til að þessi hv. þm., Sigbjörn Gunnarsson, sat ekki hér meðan fyrri ríkisstjórn starfaði og það er ljóst í mínum huga sem studdi þá ríkisstjórn að það mál strandaði ekki á Framsfl. en ég hygg að það hafi strandað á forustumönnum Alþfl. að það komst áfram og síðan kannski á hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem þá var hæstv. fjmrh. En á Framsfl. strandaði það ekki. En ég hef grun um að það hafi fremur verið Alþfl. sem réð því að það varð ekki. En ég óska Alþfl. til hamingju með það að hafa komið þessu þrepi á sem var réttlætanlegt við ríkjandi aðstæður og ég mun styðja Alþfl. heils hugar í því við núverandi aðstæður að halda hátekjuskatti og hverfa frá því að fella niður 1,1 milljarð eins og ætlað er í fjárlagafrv., en ég vil þá biðja Alþfl. að hugsa líka um öryrkjana og atvinnuleysingjana sem nú stendur til að skerða bætur til upp á 850 millj. Það er svínarí í mínum huga.