Sumarmissiri við Háskóla Íslands

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:07:21 (1516)


[17:07]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hefur löngum verið skoðun mín að skólahúsnæði á Íslandi væri vannýtt og raunar kannski kennslukraftarnir líka. Mig hefur lengi undrað það að Háskóli Íslands skuli ekki stunda öfluga fjarkennslu t.d. og tillaga sú sem flutt hefur verið hér er önnur hlið á þessu sama máli, þ.e. nýtingu kennslukrafta og húsnæðis.
    Hér áður fyrr var það þannig að háskólastúdentar stunduðu sumarvinnu, tóku þátt í atvinnulífi landsmanna af miklum krafti og söfnuðu sér þannig fjármunum til næsta skólaárs. En þeir gerðu meira en að safna sér peningum til næsta skólamissiris, þeir söfnuðu sér líka mikilli þekkingu og reynslu af atvinnulífi og lífskjörum landsmanna. Því miður eru aðstæður í íslensku samfélagi öðruvísi núna. Ég held nefnilega að þessi sumarvinna stúdentanna hafi verið á við sumarmissiri í háskóla. Þetta er bara því miður liðin tíð og eitthvað verður að koma í staðinn. Það besta er sumarmissiri við háskólann. Það lætur að líkum að sumarmissiri hlýtur að vera styttra en vetrarmissirin eru því árið er ekki lengra en það og því er um að ræða annaðhvort að lögð verði meiri vinna á nemendur sjálfa, sjálfsvinnan verði mikið meiri, eða þá að námsefnið verði ,,intensívara`` sem það kallast á erlendu máli, þ.e. að kennslustundafjöldinn verði vikulega meiri en að vetrarlagi og námið þéttara. Það eru tvær leiðir sem sagt til í þessu máli.
    Það er tvímælalaust þannig að eftir slíkt sumarmissiri verða nemendur að geta skilað sama árangri eins og um vetrarmissiri væri að ræða annars næði þessi kennsla ekki tilgangi sínum. En þessi kennsla er líka hugsuð til endurmenntunar fyrir atvinnulausa og það þarf svo sannarlega að endurskoða og gera nýjar áætlanir um alla menntun fyrir atvinnulausa og þetta yrði þá einn liður í því.
    Það er líka þannig að þessi endurmenntun gæti verið fyrir fólk í atvinnulífinu. Erlendis er talað þónokkuð um hringekjunám og -vinnu þannig að fólk skiptist á að vera í námi og vinnu yfir árið og atvinnulausir koma til afleysinga inn á milli. Slíkt hringekjunám eða sem á dönsku heitir ,,karusel``-nám gæti líka rúmast í þessari kennslu sem þarna er lögð til.
    Það eru því margir hópar í þjóðfélaginu sem gætu nýtt sér þessa kennslu, a.m.k. bæði þeir sem eru nemendur í háskólanum, þeir sem væru atvinnulausir og eru að hugsa um að reyna að bæta sig til að komast inn á vinnumarkaðinn aftur og svo ef komið væri á þessu kerfi sem ég var að nefna, hringekjukerfinu, menntun og starf. Ég held að reynsla Dana sé það góð af þessu fyrirkomulagi að við ættum að íhuga vandlega hvort við tækjum hana ekki upp líka.
    Það hvort við höfum efni á því að eyða 30 millj. kr. í þetta eða ekki er eiginlega hafið yfir allan efa. 30 millj. kr. í svona tilraun getur leitt slíkar framfarir af sér í kennsluháttum og starfsháttum að við eigum ekki að horfa á það sem neitt vandamál þó svo að ríkisstjórnin standi frammi fyrir því að gera fjárlög sem hún getur varla komið saman þá er þetta þó einn þáttur sem er þess virði að sé felldur þar inn í.