Tekjuskattur og eignarskattur

33. fundur
Þriðjudaginn 15. nóvember 1994, kl. 17:18:04 (1518)


[17:18]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 166 að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, en efni þessa frv. er að það er lagt til að heimildir fyrirtækja til að nýta sér rekstrartöp verði mjög þrengdar.
    Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóraembættinu voru ónýtt rekstrartöp sem skráð eru upp úr framtalsgögnum rekstraraðila um 86 milljarðar kr. miðað við tap sem tilgreind er á framtalsárinu 1994 eða á rekstrarárinu 1993 en skráning er ekki tiltæk vegna einstaklinga í rekstri. Heildartekjur samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum árið 1993 voru tæpir 600 milljarðar, þ.e. bæði hjá einstaklingum og félögum. Af þessu

má ljóst vera að ónýtt rekstrartöp fyrirtækja eru gífurleg og hafa farið vaxandi á umliðnum árum. Þannig voru ónýtt rekstrartöp 1992 um 66 milljarðar kr., árið 1993 um 81 milljarður kr. og árið 1994 um 86 milljarðar kr. Ef skoðað er hvernig ónýtt rekstrartöp skiptast milli kjördæma, þá eru þau á þessu ári vegna rekstrar ársins 1993 38 milljarðar í Reykjavík, 9,5 milljarðar á Reykjanesi, 9,6 milljarðar á Vesturlandi, 5,5 milljarðar á Vestfjörðum, 2,4 milljarðar á Norðurl. v., 7,3 milljarðar á Norðurl. e. og 4,5 milljarðar á Austurlandi, 4,7 milljarðar á Suðurlandi og Vestmannaeyjar eru sérstaklega tilgreindar til viðbótar með tæpa 4 milljarða.
    Þessi mál hafa áður komið til kasta Alþingis en það var á árinu 1991. Þá var lögum um nýtingu á rekstratöpum breytt en um var að ræða að takmörkuð voru nokkur rekstrartöp fyrirtækja sem sameinast. M.a. var gert að skilyrði að félög sem sameinuðust störfuðu í skyldum atvinnurekstri og jafnframt að allt yfirfært tap hefði myndast í sams konar rekstri og það félag eða fyrirtæki sem við tæki hefði með höndum. Með þessu ákvæði átti að setja verulegar skorður við nýtingu á þessum töpum, en það hefur ekki gengið eftir sem skyldi.
    Það hefur komið í ljós að menn voru fljótir að finna smugur í skattkerfinu til að komast hjá skattgreiðslum og fundnar voru ýmsar leiðir til þess að fara fram hjá ákvæðinu, t.d. með því að láta það félag sem tap hafði myndast í halda áfram rekstri, en ekki félagið með hagnaðinn eins og ákvæðið gerði ráð fyrir. Einnig má benda á að borið hefur nokkuð á því að í stað þess að sameinast hafi félög sem sýna mikinn hagnað keypt nægilegan stóran hlut til þess að öðlast yfirráð í félögum sem átt hafa uppsöfnuð töp. Í framhaldi af því er tilgangi tapfyrirtækisins síðan breytt og yfirtökufélagið hefur þannig í raun getað nýtt sér hið uppsafnaða tap. Í þessum tilvikum er ekki um raunverulega sameiningu að ræða en í 57. gr. A tekjuskattslaga kemur fram ákvæði sem samþykkt var á Alþingi 1991 eins og það breyttist en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 56. og 57. gr. skal rekstrartap, þar með taldar eftirstöðvar rekstrartaps frá fyrri árum, sbr. 7. tölul. 31. gr., hjá því félagi sem slitið var ekki flytjast til þess félags sem við tekur nema uppfyllt séu öll skilyrði þessarar greinar. Félag það sem við tekur skal hafa með höndum skyldan rekstur eða starfsemi og það félag sem slitið var. Tap flyst ekki milli félaga þegar það félag sem slitið var átti fyrir slitin óverulegar eignir eða hafði engan rekstur með höndum. Sameining félaganna verður að vera gerð í eðlilegum og venjulegum rekstrartilgangi. Hið yfirfærða tap verður að hafa myndast í sams konar rekstri og það félag sem við tekur hafði með höndum.``
    Ég held að það sé nokkuð ljóst að þessu ákvæði skattalaganna hefur ekki verið framfylgt sem skyldi og þegar félög eða fyrirtæki kaupa sér nægjanlega stóran hlut til þess að öðlast yfirráð í fyrirtækinu og breyta síðan tilgangi félagsins og nýta sér þannig uppsafnað tap þótt um alls óskyldan rekstur hafi verið að ræða sem ákvæði 57. gr. A kveður þó á um að skuli vera fyrir hendi og því ljóst að ákvæði 57. gr. A hefur ekki náð yfir þessi tilvik og menn því komist hjá því að framfylgja upphaflegum tilgangi þessa ákvæðis. En með frv. er lagt til að heimild fyrirtækja til þess að nýta sér rekstrartöp verði verulega þrengdar. Það er lögð til sú breyting á 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt að heimild fyrirtækja til að nýta sér rekstrartap nái aðeins þrjú ár aftur í tímann í stað fimm ára eins og reglan er í dag. Og ég held bara að sú eina breyting að færa þetta niður úr fimm árum í þrjú muni draga verulega úr ónotuðum resktrartöpum í framtíðinni.
    Það er reynt í frv. að bæta úr þessum annmörkum sem ég ræddi fyrr á tvennan hátt. Annars vegar er gert ráð fyrir að greininni verði breytt á þann hátt að fyrirtækjum verði ekki lengur heimilt að kaupa upp rekstrartap annarra fyrirtækja með því að sameinast þeim. Hins vegar er lagt til að sett verði í lögin ný ákvæði um yfirtöku þannig að skattyfirvöld geti neitað um frádrátt vegna rekstrartaps ef það þykir ljóst að meginmarkmiðið með yfirtöku hafi verið að lækka skattgreiðslur fyrirtækja.
    Ég tel, virðulegi forseti, að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Það er auðvitað ótækt að meðferðin á þessum töpum sé eins og raun ber vitni. Iðulega sér maður í blöðum að svo langt er gengið í þessu máli að töp hjá fyrirtækjum eru hreinlega auglýst til sölu en slík rekstrartöp hafa m.a. verið nýtt af fyrirtækjum sem eru vel stæð en kaupa til sín illa stödd eða gjaldþrota fyrirtæki fyrir óverulegar fjárhæðir og nýta síðan þessi rekstrartöp til frádráttar hagnaði og draga þannig úr skattgreiðslum sínum til samfélagsins. Ég held að það sé ljóst að það þarf að taka á þessu máli og þrengja verulega þessi ákvæði. Ég vænti þess að Alþingi taki á þessu máli og sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar. Ég tók eftir því að þegar þetta mál kom fram á Alþingi var viðtal við hæstv. forsrh. og ég gat ekki skilið annað af máli hans en hann teldi brýnt að á þessu máli yrði tekið og þessi ákvæði þrengd svo að ég vænti þess að nefndin sem fær þetta til meðferðar taki jákvætt á þessu. Það má vera að það þurfi að taka á þessu enn harðar en hér er lagt til en engu að síður vona ég að nefndin taki á þessu og þetta fái afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Hér er um verulegar fjárhæðir að ræða sem hægt er að nota til þess að draga úr skattgreiðslum til samfélagsins og það hjá vel stæðum fyrirtækjum sem kannski skila hagnaði og eru að kaupa gagngert upp tap fyrirtækja til þess að geta minnkað skattgreiðslur sínar til samfélagsins og það er ótækt að búa við.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.