Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:09:26 (1588)


[12:09]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. segir að þetta frv. gengur ekki jafnlangt og ég hefði viljað í þessum efnum. Þetta frv. er þó í þá átt sem ég vil fara, en það er rétt að ég legg meira upp úr því að byggðarlögin, héruðin og landshlutarnir beri sjálf ábyrgð á sínum málum í sambandi við náttúruvernd, gróðurvernd, eftirlit með dýrmætum fornminjum og öðru þvílíku en skilningur hefur verið fyrir ef ég má nota það orð. En það liggur alveg ljóst fyrir að sveitarfélögin eru að vakna til lífsins í þessum efnum. Það liggur ljóst fyrir að fólkið heima í byggðunum vill fá að ráða yfir sínu landi og auðvitað verður þess ekki langt að bíða að sú rödd verði yfirgnæfandi. Auðvitað mun þessi öld ekki líða án þess að fólkið heimti sinn rétt í þessum efnum. Af hverju skyldu t.d. ekki Norðlendingar eiga að hafa gæslu Jökulsárgljúfra með höndum svo að ég taki einfalt dæmi? Hvers vegna skyldu Norðlendingar ekki sjá um Langanesið ef á annað borð er ástæða til að friðlýsa það sérstaklega? þetta eru tvö mjög skýr dæmi. Auðvitað bera heimamenn best skynbragð á það hvað rétt sé að varðveita heima í þeirra héruðum, hvernig hægt sé að standa þannig að því að það raski ekki því jafnvægi sem hlýtur að vera hvarvetna milli atvinnurekstrar og náttúru? Menn vilja lifa í og með sínu landi, hafa af því tekjur, hafa af því sitt lifibrauð, en einnig varðveita það til framtíðar og helst skila því betra.