Náttúruvernd

35. fundur
Fimmtudaginn 17. nóvember 1994, kl. 12:22:27 (1592)


[12:22]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á það hér, sem ég hef gert raunar víða, að það er mikil sátt um landgræðslumálin og skógræktarmálin hjá þjóðinni. Það kemur m.a. fram í þeim miklu framlögum sem hefur verið veitt til þessara mála, bæði beinum peningagreiðslum og eins með miklu sjálfboðaliðsstarfi, og það er enginn vafi á því að það fólk sem þar hefur lagt fram drýgsta skerfinn kann ekki að meta það þegar verið er að reyna að sprengja upp þann grundvöll sem þetta starf hvílir á.
    Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því áður en ég kom í þingið í dag að það væru undirliggjandi einhverjar sprengjur í þessu máli og það yrði að taka málið upp nú vegna þess að það væru einhverjar sprengjur undirliggjandi í því. Ég hélt satt að segja að á síðustu missirum hefði þróunin orðið sú að skilningur manna fyrir mikilvægi þess að það væri staðið saman um þessi mál hefði aukist, skilningur manna á því að bændur búa bæði yfir mikilli þekkingu og reynslu sem getur nýst í þessum málum, skilningur manna á því að skógrækt hér á landi er óðum að færast í það horf að vera í senn nytjaskógrækt og landgræðsluskógrækt, ekki aðeins til augnayndis, og skilningur manna á því að nauðsynlegt sé að treysta þær greinar landbúnaðarins sem einmitt snúa að þessu, snúa að plönturækt, snúa að því að gæta betur gróðurs á hverjum stað. Einmitt þessar greinar hafa verið að styrkjast. Þannig að ég skil ekki hvernig á því stendur þegar menn eru að reyna að vekja upp einhver stríð um þessi mál í þinginu. Það er grundvallarsátt um málið. Almenningur í bæjunum og bændur vinna vel saman að landgræðslu- og skógræktarmálum og það er auðvitað ekki af hinu góða ef menn eru að reyna að vekja upp einhverja úfa í þessum málaflokki.