Kynning á íslenskri menningu

36. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 11:07:16 (1646)


[11:07]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Svavars Gestssonar. Þó að ég taki ekki undir frv. í heild sinni, þá vil ég sérstaklega styðja þá umræðu að íslenskri menningu verður seint gert of hátt undir höfði og það er mikil nauðsyn á að kynna hana.
    Íslensk menning er stór hluti þess sem við erum í rauninni að selja úr landi og við höfum undanfarin ár verið í því að kynna Ísland erlendis á ótal sviðum meðfram til þess að skapa ímynd landsins og þar hefur menning Íslands ekki verið hvað sísta afurðin sem við höfum beitt fyrir okkur. Við höfum verið að kynna menningu, við höfum verið að kynna söguna, við höfum verið að flytja út hugvit og við höfum kynnt þá útflutningsvöru eins og annað. Við höfum verið að flytja út fisk og rækju eins og kom hér fram áður og við munum vonandi í framtíðinni flytja út hvalkjöt í miklum mæli. Við erum að flytja út þekkingu um Ísland, um þá náttúru sem hér er í boði. Við erum að kynna landið, við erum að skapa því ímynd.
    Hér hefur verið nefnd kvikmyndagerð, sem svo ung sem hún er og vanmegnug og svo lítið sem hefur verið hlúð að þeirri grein, þá er hreint með ólíkindum hvað hún hefur náð áleiðis. Það má minna á margt fleira sem hjálpar okkur að skapa þessa ímynd og treysta mynd Íslands erlendis og tilheyrir margt af því menningu. Það er t.d. gengi skákmanna okkar, sem er með ólíkindum á heimsmælikvarða hvað þeim hefur gengið vel. Við höfum átt bridsmenn í afreksmannasveit. Við höfum átt ýmsa afreksmenn í íþróttum. Það má nefna handbolta, það má nefna júdó og ekki síst má nefna ótrúlega og einstaklega gott gengi fatlaðra íþróttamanna íslenskra sem hafa getið sér mikið og gott orð á erlendri grund.
    En það er með skrifstofu er nefnist miðstöð íslenskra menningarkynningar. Ég velti því mjög fyrir mér hvort sú skrifstofa á að vera ein og sér, eins og hér er lagt til, eða hvort það á að finna vettvang fyrir þessa starfsemi annars staðar og mín niðurstaða er sú að það beri frekar að gera.
    Hvað snertir þau verkefni sem upp eru talin þá eru þau mjög verðug og það er mjög nauðsynlegt að sinna þeim verkefnum sem hér eru talin upp í 2. gr. Að stuðla að samvinnu þeirra sem annast kynningu á íslenskri menningu er mjög nauðsynlegt og meira heldur en það. Það þyrftu að vera líka þeir sem annast kynningu á íslenskri menningu og hvernig sem það yrði orðað, á öðrum útflutningsverðmætum, öðrum landkynningarverðmætum sem við erum í rauninni að flytja út og kynna erlendis. Sama gegnir um upplýsingaþjónustuna.
    Nú er það svo að það er í gangi margvísleg kynningarstarfsemi á Íslandi, íslenskum atvinnuháttum, íslenskri menningu, landinu sjálfu, þjóðlífinu, sögunni, og ég vil nefna t.d. að Ferðamálaráð er með upplýsingaskrifstofur út um allan heim, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og Útflutningsráð hefur sömuleiðis unnið verulega að þessum málum og þessir aðilar í sameiningu. Ég held að það væri ráð að tengja saman þá sem þarna starfa og ýmsa aðila sem starfa í kynningu á mörgum atvinnugreinum. Ýmsir þeirra starfa sérstaklega og það er samstarf þar á milli sem ég kann ekki nægilega vel að útskýra hvernig er en ég veit að er í einhverjum mæli og þyrfti að vera miklu meira. Ég held að það væri mjög verðugt verk að samræma í breiðari fylkingu heldur en hér er lagt til þá sem eru að kynna Ísland erlendis og þá hef ég ekki síst í huga í þessari kynningu þá ferðamenn sem hingað koma og hingað munu koma. Það er okkur mjög þýðingarmikið að þessi kynning sé á einni hendi.
    Hér er talað um tekjustofna. Það er framlag úr ríkissjóði eins og ákvæði eru í fjárlögum hverju sinni. Það er framlag sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga og reyndar rætt um það að óskiptir liðir menntmrn. væru þarna sjálfsagðir. En ef þessir óskiptu liðir ráðherra eru yfirleitt inni á annað borð þá er varla hægt að kalla þá því nafni ef farið er að skipta þeim áður og kannski væri betra að skipta þeim og

kalla þá ekki óskipta.
    En ég vildi gera aðra tillögu um fjármögnun á þessari skrifstofu heldur en hér er lagt til því að það hefur sýnt sig að tekjustofnar, þó ákveðnir séu með lögum, skila sér ekki. Þeir skila sér ekki vegna þess að það er farið í þá af hv. Alþingi, hv. alþm., þeir fara í mjög marga þessara stofna og skerða þá ár eftir ár.
    Ég vil nefna framlag til Ferðamálaráðs. Ég man ekki til að fara með það hvort það er fimmta eða sjötta árið í röð, mér er nær að halda sjötta árið í röð, sem Ferðamálaráði eru ætlaðar 68 millj. á fjárlögum. Ég vona að ég fari rétt með það. Þrátt fyrir það hefur Ferðamálaráð með lögum fast afmarkaða tekjustofna, sem hafa verið skertir árlega. Og eftir því sem Ferðamálaráð hefur aukið starfsemi sína, hefur með störfum sínum eflt ferðaþjónustuna og þannig aukið veltuna í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, þá hafa alltaf aukist þær tekjur sem Ferðamálaráð ætti að hafa, 10% af vörusölu í fríhöfninni. En þrátt fyrir að þessi aukning komi beinlínis fyrir störf þessa ráðs þá hefur verið skorin niður starfsemi þess hvert einasta ár með því að láta það hafa sömu krónutölu ár eftir ár. Þarna er að finna verulega mikið fjármagn. Mér er nær að halda að það sé farið að nálgast 200 millj. sem Ferðamálaráð ætti að hafa til sinnar starfsemi. Þá höfum við, með því að draga frá 68 millj., á annað hundrað millj. til menningarmála. Það væri ekki ónýtt að hafa það til þess að kynna menninguna erlendis og hérlendis, eins og gert er ráð fyrir í 4. lið 2. gr.
    Ég held að þarna væri að finna nægilegt fjármagn og meira en það og legg til að menn beiti sér fyrir því að þessi fjárveiting til Ferðamálaráðs, sem hefur að verulegu leyti farið til að kynna íslenska menningu og ýmiss konar hluti aðra varðandi Ísland, að þar verði lagfært og þessi kynningarstarfsemi sem er okkur svo nauðsynleg og sem er alltaf skorið á, fái að þróast eins og eðlilegt er og þörf er á.
    Ég vil því lýsa því yfir aftur að ég tek undir andann í þessu frv., tek mjög sterklega undir það að við verðum að leggja okkur fram um að hlúa að íslenskri menningu, þessum dýrmæta arfi okkar, og kynna hana, en ég tel að það eigi að vera með þeim hætti sem ég var að segja frá, í samvinnu við aðra þá sem eru að vinna að því að skapa Íslandi ímynd erlendis.