Sala hlutabréfa í Lyfjaverslun Íslands hf.

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:30:25 (1683)


[14:30]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það voru mikil tíðindi sem spurðust hér um landið, að ég segi ekki heimsbyggðina, fyrir fáeinum sólarhringum. Þau tíðindi að fjmrn. ætlaði að bjóða fólki svo að segja gull og græna skóga. Það voru að vísu ekki atvinnulausir sem áttu að heyra þennan boðskap sérstaklega né heldur fólkið sem skuldar húsbréfin sín í stórum stíl, né heldur fólkið sem er að sækja um verkamannabústaðina þessa dagana og býr við kröpp kjör í húsnæðismálum, né heldur þeir sem eru að missa íbúðirnar sínar vegna gjaldþrota, né heldur þeir sem eru að missa atvinnuna sína. Þeir sem áttu að nema þennan boðskap voru þeir sem áttu peninga afgangs til að kaupa fyrir hlutabréf í Lyfjaverslun Íslands, en salan á því fyrirtæki var mjög umdeild í þessari stofnun fyrir örfáum mánuðum. Þá gerði minni hlutinn samning um það við ríkisstjórnarliðið í þinginu að málið fengi að fara í gegn gegn því að sæmilega yrði staðið að sölunni á þeim helmingi sem fjmrh. fékkst til að takmarka söluna við á hlutabréfum í Lyfjaverslun Íslands.
    Ég játa það að vísu að ég var á móti þessu máli og var síðasti maðurinn sem greiddi atkvæði gegn því á því stigi sem það var, fyrst og fremst af heilbrigðispólitískum ástæðum. Ég tel að ríkið eigi að eiga fyrirtæki af þessu tagi. En látum það vera. Niðurstaðan varð sú að fyrirtækið skyldi selt. Og hvað gerist? Það hríslast þessi fagnaðarboðskapur um þjóðina, ótrúlegi fagnaðarboðskapur að nú geti menn fengið sér hlutabréf fyrir slikk. Það hefur margt merkilegt komið úr fjmrn. í seinni tíð, sumum dettur í hug blaðburðarbörn. En þessi tíðindi sem hér eru á ferðinni satt að segja jafnast alveg á við fréttina um blaðburðarbörnin.
    Niðurstaðan er sú að það er gengið frá samningum við Kaupþing um að selja hlut í Lyfjaverslun Íslands. Kaupþing metur bréfin 150 millj. á gengi 1,34, þ.e. á 201 millj. kr. og það er boðið til þessarar stórkostlegu afsláttarveislu á hlutabréfum. Í fyrsta lagi er boðið lán upp á 200 þús. kr. af hverjum 250 þús. eða 80%. Í öðru lagi er lánið óverðtryggt til tveggja ára. Í þriðja lagi er það vaxtalaust og í fjórða lagi býður hæstv. fjmrh. upp á það til viðbótar að ríkissjóður borgi með þessu með því að lækka skatta þeirra sem kaupa bréfin. Skattafslátt skulu menn fá líka. Niðurstaðan er því sú að ríkisstjóður er að borga með þessari útgerð með ótrúlegum hætti. Auðvitað hvetur þetta til þess að það verði sett lög um það hvernig ríkiseignir verða seldar. Þetta mál minnir á SR-málið og ástæða til að rifja það upp hvernig þá var staðið að því að gefa frá sér eignir þjóðarinnar.
    Af þessu tilefni, hæstv. forseti, hef ég óskað eftir því að málið verði tekið hér fyrir utan dagskrár og legg fyrir hæstv. fjmrh. eftirtaldar spurningar:
    1. Hvaða heimild hefur hann til þeirra lánveitinga til einstaklinga sem um er að ræða í þessu tilliti? Ég veit að hann hefur heimild til að selja hlutabréfin, en hvaða heimild hefur hann til lánveitinga og til að ákveða þau kjör á lánunum sem hér er um að ræða?
    2. Er það rétt að hann hyggist selja hinn helminginn af Lyfjaverslun Íslands eftir áramót? En Hreinn Loftsson, sem er yfirmaður þessara mála af hálfu núv. ríkisstjórnar, lýsti því yfir í þætti í útvarpinu í morgun.
    3. Hvað svo? Er það rétt sem sami Hreinn Loftsson sagði að næst ætti að selja Búnaðarbankann með þessum hætti?
    4. Loks vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fær hann í raun og veru fyrir bréfin? Að teknu tilliti til skattafsláttar, að teknu tilliti til engrar verðtryggingar, að teknu tilliti til engra vaxta og að teknu tilliti til þess að gera má ráð fyrir því að fyrirtækið geti borgað út hagnað á næsta og þar næsta ári, þ.e. á lánstíma þeirra peninga sem hér er um að ræða og að teknu tilliti til þess að það er nýlega búið að leggja 300 millj. kr. í að lagfæra húsakynni Lyfjaverslunar ríkisins? Hvað hefur fjmrh. upp úr krafsinu þegar allt kemur til alls?