Kennsla í iðjuþjálfun

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 14:57:07 (1691)

[14:57]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um kennslu í iðjuþjálfun á þskj. 93. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur Bjarnason og Sigbjörn Gunnarsson.
    Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að koma á námi í iðjuþjálfun hér á landi.``
    Á síðasta löggjafarþingi fluttum við sömu þingmenn þessa sömu tillögu en vegna þess hve annir þingsins voru miklar í fyrravor og vegna þess hve við hættum snemma miðað við oft áður vegna sveitarstjórnarkosninga þá komst þessi tillaga aldrei á dagskrá.
    Þrátt fyrir að tillagan hafi ekki komist á dagskrá þá hef ég orðið vör við mikinn áhuga fólks á þessu máli. Það eru mjög margir sem hafa haft samband við mig og bent á hversu mikilvægt er að taka upp kennslu í iðjuþjálfun hér á landi af ýmsum ástæðum. Höfuðástæðan er auðvitað sú að hér á landi hefur ekki verið nokkur leið að læra þetta og fólk sem hefur viljað læra iðjuþjálfun hefur þurft að fara til útlanda til að læra.
    Eins og fram kemur í grg. með frv. þá lærði fyrsti iðjuþjálfinn á Íslandi í Danmörku og kom til starfa við Kleppsspítalann árið 1945. Talið er að um 50 iðjuþjálfar starfi hér á landi nú.
    Félag iðjuþjálfa hefur gefið út bækling sem heitir Iðjuþjálfun og langar mig, með leyfi forseta, að lesa nokkur atriði úr þeim bæklingi til að skýra nánar hvert er hlutverk og hvert er starf iðjuþjálfa því ég hef orðið vör við að mjög margir átta sig ekki á í hverju starf þeirra felst. Þessi bæklingur sem ég hef hér undir höndum, og á reyndar nokkur eintök af sem ég gæti afhent þingmönnum, skýrir mjög vel í hverju starf iðjuþjálfa er fólgið.
    Með leyfi forseta, ætla ég að lesa nokkrar setningar úr þessum bæklingi:
    ,,Undirstaða góðrar heilsu er jafnvægi milli vinnu, tómstunda og hvíldar. Iðjuþjálfar aðstoða fólk við að ná þessu jafnvægi á ný hafi það raskast vegna sjúkdóma, slysa eða breyttra félagslegra aðstæðna.`` Síðan segir að með þessum bæklingi ætli þeir að kynna starf og starfsvettvang iðjuþjálfa.
    Síðar segir: ,,Iðjuþjálfar vinna með fólki sem á í erfiðleikum í sínu daglega lífi. Orsakirnar geta verið margs konar. Til dæmis líkamleg fötlun, t.d. hreyfihömlun en oft afleiðing veikinda eða slysa. Í iðjuþjálfun fær fatlaður einstaklingur þjálfun í þeim athöfnun daglegs lífs sem hann ræður ekki við. Það eru oft athafnir eins og að klæðast, snyrting, borðhald og matargerð en einnig geta verið athafnir sem tengjast tómstundum og atvinnu. Iðjuþjálfi metur þörf fyrir hjálpartæki og aðstoðar við útvegun þeirra. Einnig sér hann um að meta og endurskipuleggja aðstöðu á heimili og vinnustað. Samhliða þjálfun í daglegum þörfum býður iðjuþjálfinn upp á möguleika til að þjálfa þætti eins og samhæfingu, vöðvastyrk og úthald.
    Í iðjuþjálfun lærir fólk að beita líkamanum rétt og skipuleggja störf sín þannig að komist verði hjá óþarfa álagi og starfsorkan nýtist sem best.``
    Þetta var varðandi líkamlegu fötlunina. En síðar í bæklingnum er minnst örlítið á andlega erfiðleika og ég ætla að lesa einn lítinn kafla úr því, með leyfi forseta:
    ,,Með samtölum og þátttöku í daglegum störfum hjálpar iðjuþjálfinn þeim að gera sér grein fyrir hæfni sinni og takmörkunum og byggja upp sjálfstraust og öryggiskennd. Á sama hátt fær fólk þjálfun í að sjá um sig sjálft, að umgangast og starfa með öðrum og að taka ábyrgð.``
    Síðan er minnst á það sem kallast þroskafrávik en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Iðjuþjálfi vinnur við hæfingu barna og unglinga sem vegna þroskafráviks eru á einhvern hátt hindraðir í sínu daglega lífi. Skipuleg örvun með leik og öðrum daglegum athöfnum stuðlar að auknum alhliða þroska. Með breytingum á nánasta umhverfi barns sem er þroskaheft á einhverju sviði má koma í veg fyrir þætti sem geta hindrað þroska þess á öðrum sviðum.``
    Og varðandi öldrun segir, með leyfi forseta:
    ,,Með þjálfun, útvegun hjálpartækja og ráðleggingum um húsnæðisbreytingar eykur iðjuþjálfinn möguleika hins aldraða til að búa sem lengst á eigin heimili.``
    Þetta eru aðeins nokkur atriði sem ég tek upp að því er varðar endurhæfingu úr þessum bæklingi. En með þessu vil ég leggja áherslu á hversu mikilvægt þetta starf er og hversu mikið í raun starf iðjuþjálfa getur hjálpað bæði einstaklingunum og þjóðfélaginu í heild. Það er hægt að hjálpa einstaklingum sem hafa orðið fyrir einhverjum áföllum, hvort sem það eru andlegir eða líkamlegir erfiðleikar sem fólk býr við af ýmsum ástæðum þá getur starf iðjuþjálfans orðið til þess að það getur tekið þátt í lífinu á ný.
    Iðjuþjálfar eru ekki eingöngu í því að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir einhverjum áföllum heldur er þeirra starf líka mikilvægt í forvarnastarfi og langar mig að taka upp tvær, þrjár setningar upp úr þessum bæklingi að því er varðar forvarnarstarf. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Forvarnastarf iðjuþjálfa beinist oft að vinnuumhverfi fólks með áherslum á atriði eins og húsgögn og innréttingar, loftræstingu, lýsingu, streitu og félagsleg samskipti á vinnustað. Iðjuþjálfi leiðbeinir um líkamsbeitingu við störf og vinnutæki og veitir ráðgjöf um fyrirkomulag á vinnustað til að auka öryggi og vellíðan starfsmanna.``
    Þetta er úr þessum bæklingi sem ég tel lýsa nokkuð vel í hverju iðjuþjálfun felst. Eins og ég sagði áðan þá hef ég einmitt orðið vör við að það eru ekki allir sem átta sig á hversu mikilvægt starf iðjuþjálfans er.
    Til að átta sig betur á þessu verður líka að gera sér grein fyrir því að iðjuþjálfar starfa víða. Þeir eru í sjúkrahúsum, á öldrunardeildum og geðdeildum, endurhæfingarstöðvum, á heilsugæslustöðvum og í skólum. Þannig að víða eru þessir iðjuþjálfar að störfum. Og eins og ég segi þeir starfa auðvitað með öðrum heilbrigðisstéttum, þetta er heilbrigðisstétt sem þarna er um að ræða.
    Eins og fram kemur í grg. þá skipaði þáv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson nefnd árið 1988 til að kanna möguleika á kennslu í iðjuþjálfun hér á landi og hvernig þessari kennslu yrði best fyrir komið.
    Nefndin skilaði áliti í maí árið 1989 og komst að þeirri niðurstöðu að tímabært væri að hefja kennslu í iðjuþjálfun á Íslandi og að náminu yrði best fyrir komið í Háskóla Íslands.
    Tillögur um hugsanlegt skipulag námsins miðuðu við að námið tæki fjögur ár við Háskóla Íslands og væri bæði bóklegt og verklegt. Gert er ráð fyrir að unnt verði að samnýta að miklu leyti kennslu í öðrum heilbrigðisgreinum, ekki síst sjúkraþjálfun, þar sem um gæti verið að ræða mörg sameiginleg námskeið á fyrsta og öðru ári.
    Þannig að í raun og veru þarf upptaka náms við iðjuþjálfun ekki að hafa eins mikinn kostnað í för

með sér eins og e.t.v. mætti halda miðað við það að vera að taka upp nýja starfsgrein við Háskóla Íslands.
    Ég er ein af þeim sem hafa löngum viljað að í háskólanum væri miklu meira um samþættingu allra heilbrigðisstétta að ræða, þ.e. námið á fyrsta og öðru ári. Síðan væri greint út eftir það eftir því hvað fólk velur að fara í. T.d. er mjög margt sem skarast í sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun, eins í hjúkrunarfræði og læknisfræði og reyndar miklu fleira. Þannig held ég að með því að taka upp nám í þessari grein þá værum við í raun að þjóna mjög mikilvægu og merkilegu starfi og mundum hjálpa mjög mörgu fólki til að komast í vinnu og í eðlileg samskipti við fólk úti í þjóðfélaginu.
    Eins og ég sagði áðan þá eru núna 50 iðjuþjálfar starfandi á Íslandi. Iðjuþjálfarafélagið hefur gert lauslega könnun á því hvað þyrfti marga iðjuþjálfa á næstu árum og þeirra niðurstaða er í kringum 170. Það er auðvitað enginn sem getur nákvæmlega sagt fyrir um það en staðreyndin er sú að það er mikil þörf fyrir iðjuþjálfa. Vandamálið er það að fólk hefur þurft að fara til útlanda með ærnum tilkostnaði og ég er alveg viss um að það er ekki reiknað inn í þetta, þegar verið er að spekúlera í því hvað þetta kostar, þá er ekki nægilega mikil áhersla lögð á það hversu erfitt það er fyrir marga að þurfa að fara til útlanda, taka sig upp með sína fjölskyldu, taka námslán sem þarf að greiða til baka. Ekki eru nú launin há, því miður, hjá þessari stétt frekar en mörgum öðrum heilbrigðisstéttum þar sem meiri hlutinn eru konur.
    Ég tel þess vegna að það sé mjög brýn þörf að taka á þessu máli og að menntmrh. geti beitt sér og ýtt raunverulega á að þetta verði gert í Háskóla Íslands. Ég hef fyrir því áreiðanlegar heimildir að í háskólanum sé áhugi fyrir að taka upp kennslu í iðjuþjálfun en það þarf auðvitað eitthvert ákveðið fé til þess að byrja en ég held að það sé í raun ekki svo mjög mikið miðað við það hvað þetta er mikilvægt. Þannig að þó að tíminn sé stuttur á þessu þingi og okkur sé ekki ætlaður allt of langur starfstími á þessum vetri þá vona ég að þessi einfalda tillaga sem þó er svona mikilvæg geti fengið framgang á þessu þingi og að við getum samþykkt hana fyrir þinglok í vor.
    Að lokinni fyrri umr. um þetta mál legg ég til að því verði vísað til síðari umr. og hv. menntmn.