Kennsla í iðjuþjálfun

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 15:20:39 (1694)


[15:20]
     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
    Frú forseti. Það þarf ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál, það liggur mjög skýrt fyrir. Ég tók það kannski ekki fram áður en grg. með þessari tillögu er unnin í samvinnu við Iðjuþjálfafélagið þannig að þær eru mjög sáttar við það sem kemur fram, þær sem ég hef talað við.

    Ég vil líka taka það fram að starfandi er ákveðin skólanefnd innan Iðjuþjálfafélagsins sem hefur lýst sig reiðubúna til að koma hvenær sem er á fund menntmn. eða þeirrar nefndar sem fær þessa tillögu, ég hef lagt til að það verði menntmn., og skýra betur þann undirbúning sem hefur nú þegar verið gerður í þessu máli af þeirra hálfu. Ég held því að í raun sé búið að gera mjög mikið í þessu máli svo að það ætti ekki að þurfa að taka mjög langan tíma að hefja þetta nám.
    Ég vil leggja áherslu á það og taka undir það sem hér kom fram, sérstaklega hjá hv. 3. þm. Vestf., varðandi sparnað þegar til lengri tíma er litið því það er það sem skiptir langmestu máli, sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Þegar alltaf er verið að tala um að spara þar og draga saman og skera niður þá eru það fyrirbyggjandi aðgerðirnar sem skipta langmestu máli og að það sé ekki einmitt verið með hluti inni á dýrum stofnunum sem hægt er að gera annars staðar. Þetta er einmitt eitt dæmi eins og kom fram hjá hv. 11. þm. Reykn. áðan sem þekkir vel til inni á sjúkrastofnunum og veit hvernig þetta fer fram.
    Þannig að ég held að við sem leggjum fram þessa tillögu og þeir sem hér hafa tekið undir, og reyndar margir sem hér hafa komið að máli, þeir eru ekki að segja við viljum fá þetta og þetta kosti svo og svo mikið, þetta er sparnaður --- við þurfum samt að gera okkur grein fyrir því að við þurfum að leggja eitthvað til til að byrja með en það verður mjög fljótt að koma til baka.
    Frú forseti. Ég ítreka það að ég vona að við getum á þessu þingi afgreitt þessa tillögu svo að við komum af stað þessum lokaundirbúningi því ég held að það sé búinn að vera svo langur undirbúningur að þessu máli að þetta tekur ekki svo langan tíma að setja þetta af stað.
    Ég þekki nú svolítið til í háskólanum og í kennslu heilbrigðisstétta og ég veit að það er hægt að samþætta mjög mikið í þeim efnum. Ég bendi t.d. á að ég held að það séu á annað hundrað manns sem eru að byrja í sjúkraþjálfun eða er að reyna að komast í sjúkraþjálfun núna. Þar eru einnig fjöldatakmarkanir eins og í læknadeild og víða annars staðar. Þetta fólk er núna að berjast í því að fá nógu háar einkunnir til þess að geta haldið áfram en síðan verða þeir að byrja upp á nýtt eða fara eitthvað annað. Við erum því í raun að kasta heilmiklum peningum á glæ og þekkingu og efni í staðinn fyrir að reyna að nýta það á fleiri sviðum sem væri t.d. hægt að gera með iðjuþjálfun og kannski eitthvað fleira sem við gætum nýtt og mundi koma okkur öllum til góða.