Rannsóknarráð Íslands

37. fundur
Föstudaginn 18. nóvember 1994, kl. 16:08:34 (1703)


[16:08]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að blanda hv. formanni menntmn. inn í þessa umræðu. Eftir að þetta frv. var lagt fram í þinginu hefur hann ekki tjáð sig um það mál og ég tel að það sé ástæðulaust að gera honum upp skoðanir á málinu. Hins vegar er ljóst að hæstv. menntmrh. hefur tjáð sig um málið og ekkert farið í grafgötur með það að hann er ósammála þeim sem hér stendur. En til þess hefur hæstv. menntmrh. fulla heimild. Hann taldi sig hafa tryggt það með embættisverkum sínum að sjónarmið atvinnulífsins kæmu fram í ráðinu og taldi að þeir heiðursmenn sem skipa þetta ráð gætu vel verið fullgildir fulltrúar atvinnulífsins. Þess ber að geta að Rannsóknarráð Íslands skipa valinkunnir menn sem enginn efast um að hafi mikla hæfileika til að starfa í ráðinu. Það er heldur ekki með flutningi þessa frv. verið að ýja að því með nokkrum hætti að þessir valinkunnu menn sem nú starfa í Rannsóknarráði Íslands hafi ekki fullan skilning á vandamálum atvinnulífsins. Þeir hafa það eflaust og eru allir af vilja gerðir til þess að inna af hendi störf sín eins vel og þeir geta en við erum ekki hér og nú að tala um ákveðnar persónur, við erum að tala um reglur sem eiga að gilda um þetta til langs tíma. Það hefur komið í ljós að milli þess sem flytur þetta mál, 1. flm. málsins sem hér stendur, og hæstv. menntmrh. er skoðanaágreiningur um þetta atriði og við það verður að búa.
    Ég hef notið þeirra forréttinda að starfa í þrjú ár í Rannsóknaráði ríkisins og er þakklátur fyrir að hafa fengið að gegna því trúnaðarstarfi. Ég tel að ég hafi lært mikið af því að starfa þarna. Ég tel að við þau störf hafi ég sannfærst um það að fulltrúar rannsóknastofnana atvinnuveganna og menn sem þar sátu af hálfu Háskóla Íslands og annarra merkra rannsókna- og vísindastofnana lögðu sig fram um að vinna störf sín vel og af mikilli skyldurækni og innsæi í þetta málefni. Ég er engu að síður sannfærður um að það er mjög mikilvægt að hleypa mönnum inn í þetta ráð, ekki aðeins með akademíska þekkingu heldur ekki síst með innsýn í viðfangsefni atvinnulífsins.
    Mörg rannsóknarefni sem ber á fjörur Rannsóknarráðs Íslands, og mörg rannsóknarefni sem ætti að bera á fjörur ráðsins en gera það ekki, því miður, eru þess eðlis að menn þurfa fyrst og fremst að hafa þekkingu sína beint úr atvinnugreinunum til þess að það komi að gagni.
    Það er fyrst og fremst í því markmiði að tryggja að svo geti orðið sem þetta frv. er lagt fram. Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna það að frv. í þessu formi tryggir ekki þessi mál. Það leggur miklar skyldur á herðar Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandinu til þess að leita leiða til að fá í þetta fólk sem er verðugir fulltrúar fyrir atvinnulífið og hefur innsýn í þau vandamál sem þar eru uppi. Ég tel þó að þetta sé betri ráðstöfun en núverandi fyrirkomulag og er að þessu leyti sammála ýmsum umsagnaraðilum og að því er mér heyrist sammála hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur. Þess vegna hygg ég að hún ætti að geta staðið af mikilli sannfæringu með mér í þessu máli og unnið að því að koma því í gegnum hv. menntmn. Þó að við séum ekki flokkssystkini þá hljótum við að finna þarna samnefnara fyrir áhugamál okkar og ég fagna því að geta notið stuðnings hennar í þessu máli.