Störf landpósta

38. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 15:24:25 (1714)



[15:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp utan dagskrár. Það er full ástæða til að ræða þessi mál í þinginu. Mönnum hafa verið mislagðar hendur við þessar breytingar hjá Pósti og síma og satt að segja hefur maður um það ákveðinn grun að þarna sé á ferðinni hluti af einkavæðingaræði ríkisstjórnarinnar og menn hafi ýtt þar meira á eftir heldur en hefði átt að gera. Menn hafa ekki sést þar fyrir. Við höfum séð hvað hefur gerst t.d. í einkavæðingu í sambandi við sjávarvörueftirlitið, þar sem voru stofnuð sjö fyrirtæki og menn keyra í halarófu allt í kringum landið til þess að skoða á sömu stöðunum hvernig farið er að við sjávarvöruframleiðsluna. Allt hefur þetta orðið miklu dýrara en áður var og síðan koma kröfur erlendis frá um það að taka upp ríkismatið að nýju. Þannig að kerfið verður tvöfalt að lokum og kannski gæti það orðið það líka í þessu tilfelli, að t.d. það sem hefur verið lagt á landpóstana, að fara út með stefnur og kröfur og annað því um líkt til fólks, verði síðan að gera með sérstökum hætti fyrir utan það kerfi sem Póstur og sími er að koma núna upp með einhvers konar útboðafyrirkomulagi. Það hefur síðan ekki verið hlustað á heimamenn á svæðum þar sem gerðar hafa verið breytingar á þessari þjónustu. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að beita sér fyrir því að það verði tekin upp önnur vinnubrögð heldur en hafa verið í þessu máli fram að þessu þannig að betur verði vandað til þeirra breytinga sem verða gerðar í framhaldinu heldur en það sem hefur verið gert fram að þessu og menn nýti sér reynsluna af þeim mistökum sem hafa verið gerð við þessa einkavæðingu póstþjónustunnar.