Fiskvinnsluskólinn

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 16:32:22 (1747)


[16:32]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er yfirleitt að standi skólar ekki undir ætlunarverki sínu þá bregst þeim nemendasókn. E.t.v. getur ástæðan fyrir því að skólanum hefur verið lokað að sinni verið sú að nemendur hafa hreinlega ekki komið í skólann. En ef nemendur hafa komið og hafa viljað stunda það nám sem nú er í gangi á auðvitað að veita þeim það meðan er verið að endurskoða. Mér finnst það alveg sjálfsagður hlutur.
    Ég hef skoðað þennan skóla í Hafnarfirði og eftir því sem ég hef sjálf haft vit á er hann nokkuð vel búinn til verklegrar kennslu en aðstæða bóklegrar kennslu mætti kannski vera betri. Ég tel að það hafi verið mikið framfaraspor þegar skólinn var stofnaður en auðvitað má bæta hann og gera hann miklu betri og til þess að þessi undirstöðugrein, sem vinnsla sjávarafurða er á Íslandi, fái að blómstra verður að búa honum eins gott atlæti á alla kanta og mögulegt er.