Veðurathugunarstöð á Þverfjalli

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 17:14:24 (1766)


[17:14]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Breiðadalsheiði, leiðin milli Ísafjarðarkaupstaðar og Önundarfjarðar, er hæsti fjallvegur á íslenskum þjóðvegum, liggur í yfir 600 m hæð. Veðurfar á heiðinni er oft mjög ólíkt því sem gerist niðri í byggð, einkum að vetrarlagi, þar sem oft er ófært veður þar uppi en hægviðri í byggð. Það hefur einatt valdið þeim sem erindi eiga yfir heiðina ómældum erfiðleikum og oft og tíðum haft mikla hættu í för með sér svo sem dæmin sanna. Það var því almenn ánægja með þá þjónustu sem tekið var að veita fyrir um hálfu öðru ári þegar upplýsingar um veðurhæð, vindátt og hitastig fóru að berast í gegnum textavarp sjónvarpsins og þeir sem erindi áttu yfir Breiðadalsheiði gátu kynnt sér aðstæður þar án þess að fara upp og eiga á hættu að lenda þar í vandræðum. Þá var þessi þjónusta ómetanleg fyrir flug, einkum flug

lítilla véla og póst- og sjúkraflug flugfélagsins Ernis, sem er mjög mikilvægt að eigi aðgang að glöggum veðurupplýsingum.
    Jafnmikið kom það á óvart þegar skyndilega og án nokkurra skýringa var lokað fyrir þessa þjónustu á síðasta vetri. Þegar leitað var svara hjá Vegagerð ríkisins var fátt um svör og engin fyrirheit hafa fengist þar um hvort og þá hvenær væri að vænta þess að upplýsingar um veðurfar á Breiðadalsheiði kæmu inn í textavarpið að nýju. Mér er sagt að tækin sem eru í eigu Veðurstofunnar hafi verið fengin til að safna upplýsingum vegna snjóflóðavarna og snjóflóðarannsókna og að fjmrh. hafi, vegna endurgjafar á innflutningsgjöldum lagt bann við annarri notkun þeirra.
    Til að fá svör við þessum spurningum og einnig að fá upplýst hvort ekki stendur til að auka öryggi vegfarenda um þennan háa og erfiða fjallveg ásamt öryggi í flugi um þetta svæði hef ég lagt fram svohljóðandi fsp. til hæstv. samgrh. á þskj. 156, með leyfi forseta:
    ,,Hvenær er þess að vænta að Vegagerð ríkisins fái afnot af sjálfvirkri veðurathugunarstöð Veðurstofu Íslands á Þverfjalli svo að hægt verði að setja veðurskilyrði á Breiðadalsheiði inn í textavarp ríkissjónvarpsins?``
    Virðulegi forseti. Samkvæmt nýjum upplýsingum sem ég hef fengið um þetta mál þá hef ég frétt að þetta sé komið þegar inn í textavarpið og e.t.v. skýrir það þá töf sem hefur orðið að þessari fsp. En hafi hún orðið til að flýta fyrir þessu þá er það vel og ég fagna því mjög ef þessi mál eru komin í viðunandi horf.