Vegaframkvæmdir á Austurlandi

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:04:07 (1805)


[14:04]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra gefi sér tíma til þess að svara spurningum mínum betur en hann gerði í andsvari hér áðan því að það komu engin svör fram við þeim spurningum sem ég bar fram. Hann aftur á móti spurði mig spurninga sem ég get vel svarað. Ég tel að það sé ekkert heilagt í því að endurskoða skiptingu vegafjár. Ég sagði það reyndar í minni ræðu hér áðan að ég tel fulla ástæðu til þess að huga að því hvenær sem menn telja til þess ástæðu. En það hefur verið á vegum hæstv. ríkisstjórnar krukkað í þessa hluti án þess að endurskoða þessa skiptingu vegafjár. Það er nýbúið að lýsa því yfir að það eigi að fara í stórkostlegar framkvæmdir án þess að endurskoða þessa skiptingu vegafjár og ákvarðanir eru teknar áður en menn hafa farið yfir þau mál með neinum hætti. Ég tel fulla ástæðu til þess að sá sem á að bera aðalábyrgðina á stefnu ríkisstjórnarinnar í vegamálum tali, hæstv. ráðherra, skýrt og greinilega um þessi mál og láti ekki sífellt aðra vera að tala fyrir sig þegar stórmál eru kynnt. Ég spyr hann þess vegna enn og aftur: Er það þá þannig að það sé búið að ákveða þessa hluti alla án þess að það eigi að fara yfir og skoða skiptingu vegafjár?