Fullgilding GATT-samkomulagsins

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:40:18 (1863)


[13:40]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Það staðfestist hér sem í fréttum hefur verið að nú sé orðin mikil óvissa um það hvað af þessu samkomulagi verði því að ljóst er að ef til að mynda Bandaríkjamenn koma í veg fyrir að það taki gildi nú um áramótin, þá getur það þýtt umtalsverða frestun á málinu eða jafnvel stofnað tilkomu samkomulagsins í heild sinni í óvissu eins og valdahlutföll hafa breyst þar í landi.
    Hitt er svo öllu lakara að hér er það enn fremur staðfest að undirbúningur þessara mála af hálfu okkar hér heima fyrir er í ólestri. Það er ekki hægt að kalla það annað en í ólestri að nú þegar rétt rúmar fjórar vikur eru til þess að þing ljúki störfum fyrir jól, þá er að staðfest að málið sé enn í nefnd af hálfu stjórnarflokkanna og frumvörp sem hefði þurft og ætti að afgreiða fyrir áramót hafa ekki enn litið dagsins ljós. Það liggur ljóst fyrir að það er bullandi ágreiningur milli stjórnarflokkanna um meðferð þessa máls í stjórnkerfinu og það verður að átelja það mjög harðlega að enn einu sinni skuli lamandi óvissa hanga yfir landsmönnum, til að mynda landbúnaðinum, vegna þess að stjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um þessi mál. Þetta er til skammar, hæstv. forseti, hvernig ríkisstjórnin stendur að þessu máli.