Biðlistar á sjúkrahúsum eftir smáaðgerðum

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:57:58 (1879)

[13:57]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Mig langar einnig til að beina orðum mínum til hæstv. heilbr.- og trmrh. þó honum kunni að líða illa undir umræðum um heilbrigðiskerfið eins og það er nú orðið.
    Tilefni minnar fyrirspurnar er það að fram kom í einum ljósvakafjölmiðli nú á dögunum að bið eftir smávægilegum aðgerðum eins og t.d. hálskirtlatöku væri sex til átta mánuðir og jafnvel upp í eitt til eitt og hálft ár. Nú má ekki skilja það svo, þó að ég nefni smávægilega aðgerð, að hálskirtlataka sé eitthvað sem menn gera á sérfræðistofu úti í bæ. Það þarf helst sjúkrahúslegu a.m.k. einn sólarhring fyrir slíka aðgerð en á meðan á slíkri bið stendur er kostnaður, bæði vegna heimsókna til lækna og lyfjakaupa, mjög mikill fyrir sjúklinginn fyrir svo utan vanlíðan, vinnutap, missi úr skóla af því að oftast er um börn eða unglinga að ræða og hefur áhrif á fjölskylduna. Samkvæmt upplýsingum Hannesar Hjartarsonar, háls-, nef- og eyrnasérfræðings á Borgarspítalanum, er biðlistinn nú allt að 1.000 manns og biðtíminn 6--8 mánuðir. Fjölmiðillinn sem var reyndar Ríkisútvarpið, Rás 2, hafði svo einnig samband við Einar Thoroddsen, háls-, nef- og eyrnalækni, og taldi hann biðina vera enn lengri, jafnvel eitt til eitt og hálft ár eftir aðgerðum af þessu tagi.
    Í tilfelli því sem vakti umræðuna hafði einstaklingur, 17 ára unglingur, þurft að fara þrisvar til læknis á skömmum tíma og kostnaður við viðtölin og pensillínlyf þá þegar orðinn 10.700 kr. og örugglega ekki allt búið ef biðin verður hálft til eitt ár hjá þessum einstaklingi. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra:
    Var honum ljóst að svo fjölmennur biðlisti og svo langur biðtími væri eftir smáaðgerðum af því tagi sem hálskirtlataka er?
    Telur hæstv. ráðherra að það sé mikill sparnaður, annars vegar fyrir heilbrigðiskerfið og hins vegar fyrir þjóðarbúið í heild að reka heilbrigðisþjónustuna með þessum hætti?
    Í þriðja lagi: Er hæstv. heilbrrh. tilbúinn að beita sér fyrir aðgerðum til þess að ráða bót á þessu óþolandi ástandi?
    Ég skil þessar spurningar eftir í ræðustólnum fyrir hæstv. ráðherra.