Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:33:56 (1921)


[11:33]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þarna er fyrst og fremst verið að koma á samstarfi sem hefur að nokkru leyti vantað og er mjög mikilvægur hlekkur í þeirri starfsemi sem við höfum verið að fjalla um hér. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að það samstarf byggist upp þannig að það geti ekki gerst sem ég heyri að þingmaðurinn óttast að barnaverndarnefnd sem ekki væri meðvituð um skyldur sínar væri e.t.v. að fjalla um mál í sínu horni án þeirrar faglegu ráðgjafar sem er nauðsynlegt að hún fái frá barnaverndarstofu og hvort sem það verður með heimsóknum eða með öðrum tengingum á milli barnaverndarstofu og barnaverndarnefndar þá fullyrði ég að það er markmiðið með þessu starfi að það geti ekki gerst og eigi ekki að gerast sem þingmaðurinn óttast að barnaverndarnefndin verði afskekkt í sínu starfi.