Vatnsgjald

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:08:12 (1999)


[17:08]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Efni fsp. er: Hvernig fylgist félmrn. með því að framfylgt sé þeim ákvæðum 7. gr. laga nr. 81/1991, um vatnsveitur sveitarfélaga, að vatnsgjald standi einungis straum af stofnkostnaði og rekstri vatnsveitu? Samkvæmt 1. mgr. 118. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, skal félmrn. hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt þeim lögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Ákvæði þetta er í samræmi við 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem gert er ráð fyrir umsjón ríkisvaldsins með sveitarfélögum.
    Í eftirlitshlutverki getur falist annars vegar frumkvæðiseftirlit og hins vegar eftirlit í gegnum stjórnsýslukærur. Félmrn. hefur almennt ekki frumkvæðiseftirlit í þeim skilningi að ráðuneytið kalli stöðugt eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um framkvæmd þeirra málaflokka sem undir þau heyra samkvæmt lögum og þar með talið lögum um vatnsveitur sveitarfélaga.
    Frumkvæðiseftirlit getur þó komið til ef einhver sérstök atvik leiða til þess en slíkt metur ráðuneytið hverju sinni. Fyrir fram er reiknað með því að sveitarstjórnir fari eftir lögum í starfsemi sinni en ráðuneytið skoðar þau mál sem því berast annaðhvort með almennum erindum eða kærum. Félmrn. berast ársreikningar frá sveitarfélögunum eins og hér hefur komið fram og ráðuneytið yfirfer ársreikningana og gerir athugasemdir ef ástæða þykir til. Ársreikningar sveitarfélaga eru endurskoðaðir af tveimur kjörnum skoðunarmönnum og í sveitarfélögum með 500 íbúum eða fleiri er löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu jafnframt falin endurskoðun. Með endurskoðun sinni skulu skoðunarmenn og eftir atvikum endurskoðendur komist að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika ársreikningsins og skulu þeir ganga úr skugga um að hann sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og að fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta um meðferð fjármuna sveitarfélagsins, þar með talið ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga eftir því sem við á. Það er rétt að benda á í þessu sambandi að grunntónn sveitarstjórnarlaganna er sjálfstæði sveitarfélaganna og sjálfsforræði þeirra í eigin málum og að afskiptum ríkisvaldsins af málefnum sveitarfélaganna er hagað í samræmi við það.