Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:15:36 (2035)


[14:15]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég held að sú krafa að hæstv. landbrh. sé viðstaddur þessa umræðu og taki þátt í henni sé í hæsta máta eðlileg og varla hægt að hugsa sér að umræðan gangi fram án þess að hæstv. ráðherra taki þátt í henni því allir hv. þm. vita að hér er bullandi ágreiningur á ferðinni um það hvernig eigi að útfæra þetta GATT-samkomulag hér innan lands. Það hefði verið það eðlilegasta að menn hefðu gert hér grein fyrir niðurstöðum þess um leið og þessi umræða færi fram. Nefndin sem hér hefur verið nefnd hefur haft langan tíma til að fást við þetta mál og ég veit ekki betur, a.m.k. hefur mér verið sagt það að mál hafi verið föst í henni alllengi og þar hafi menn ekki komist áfram og það sé ástæðan fyrir því að hér liggja ekki fyrir neinar niðurstöður í starfi nefndarinnar. Og þó að hæstv. utanrrh. hafi sagt að mjög fljótlega mundi leysast úr þessum málum þá er það ekki mjög nákvæm tímasetning sem hægt er að lesa út úr því því ef það er borið saman við þann tíma sem það hefur tekið að koma þessum samningum á þá getur verið lagt í að niðurstöðu nefndarinnar verði að vænta til umfjöllunar. Spurningin er auðvitað hvort það sé eðlilegt að afgreiða þessi mál hér án þess að menn viti hvernig á að taka á framhaldinu.