Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:23:25 (2058)


[15:23]
     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Hér er á ferðinni eitt mikilvægasta mál þessa þings og stórmál sem við þurfum að taka afstöðu til á tiltölulega skömmum tíma til þess að geta verið virkir þátttakendur í því að koma á fót þeirri alþjóðaviðskiptastofnun sem mælt er fyrir um í till. til þál. sem hér er til meðferðar. Þetta mál var til óformlegra umræðna á fundi utanrmn. í gærmorgun og þar voru menn sammála um að nefndin tæki það til rækilegrar athugunar á tiltölulega skömmum tíma til þess að við drægjumst ekki aftur úr öðrum þjóðum við afgreiðslu á málinu. En til þess að sú afgreiðsla gangi fram er nauðsynlegt að fyrir liggi tillögur frá þeirri nefnd fimm manna, sem hér hefur oft komið til umræðna, um breytingar á íslenskum lögum sem eru óhjákvæmilegar vegna þátttöku okkar í Alþjóðaviðskiptastofnuninni og vegna fullgildingar á þessum viðamikla samningi. Það hafa þegar verið gerðar ráðstafanir til þess á vegum utanrmn. að þessar upplýsingar berist og fyrir liggur, eins og fram hefur komið í máli ráðherra, að frumvörp til lagabreytinga eru væntanleg á næstunni.
    Það er verið að fjalla um þetta mál í þjóðþingum víða um lönd einmitt þessa dagana og á fimmtudaginn mun Bandaríkjaþing væntanlega taka málið til afgreiðslu og samþykkja það ef svo fer fram sem horfir eftir samninga sem tekist hafa milli forseta Bandaríkjanna og forustumanna á Bandaríkjaþingi eftir nýafstaðnar kosningar þar. Innan Evrópusambandsins hefur málið einnig verið ítarlega rætt. Þar hafa verið deilur um það hvaða aðili það sé á vegum sambandsins sem getur tekið ákvörðun um þátttöku ríkjanna í þessu samstarfi. Evrópudómstóllinn hefur fellt úrskurð í málinu og þá liggur það fyrir að bæði sameiginlegar stofnanir Evrópusambandsins og einnig þjóðþing einstakra aðildarríkja verða að taka málið fyrir. Í þessu efni er tíminn tiltölulega skammur ef ætlunin er að stofna Alþjóðaviðskiptastofnunina 1. jan. nk. Við þurfum því að láta hendur standa fram úr ermum á næstu dögum og vikum til þess að afgreiða þetta viðamikla mál en eins og ég segi er forsenda þess að utanrmn. geti tekið á málinu að tillögur fimm manna nefndar ríkisstjórnarinnar liggi fyrir og menn sjái hvernig á að haga breytingum á lögum í tengslum við afgreiðslu málsins á þinginu.
    Hér hafa landbúnaðarmálin eðlilega komið nokkuð til umræðna og hafa verið settar á, eins og við vitum, nokkrar deilur um þau mál, en ég held að menn megi ekki aðeins líta á hliðina varðandi hugsanlegan innflutning á landbúnaðarafurðum heldur verði einnig að hafa í huga að áform eru uppi um það af hálfu íslenskra bænda og bændasamtaka að reyna að auka útflutning á íslenskum landbúnaðarafurðum og hasla sér nýrra markaða í því efni. Ég held að menn verði að hafa það í huga að þessi samningur getur einnig gagnast okkur með þau áform í huga og það eigi ekki að líta á þetta frá þröngum innanlandshagsmunum, ef ég orða það svo, þegar rætt er um landbúnaðarmálin.
    Það liggur ljóst fyrir að reglur varðandi dýrasjúkdóma og plöntusjúkdóma munu nýtast okkur til þess að koma í veg fyrir að slíkir sjúkdómar berist hingað og munu hafa veruleg áhrif á ákvarðanir okkar um innflutning á landbúnaðarvörum. Það mál verður því að skoða ekki aðeins með hugmyndir um lækkun á tollum í huga heldur einnig með vísan til þeirra ströngu reglna sem settar eru um heilbrigði og rétt ósýktra ríkja, ef þannig má að orði komast, til að vernda heilbrigði dýrastofna innan sinna landamæra. Þar höfum við Íslendingar mikla sérstöðu og eigum ekki í miklum vandræðum með að sanna fyrir öðrum að hér séu dýrastofnar ósýktir og við getum þess vegna á grundvelli þessa samnings gert ríkar kröfur til þeirra sem hyggja á innflutning hingað.
    Það kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. 9. þm. Reykv., að það væri forvitnilegt að líta til ríkjanna í Asíu þegar við ræddum um þróun efnahagsmála og uppgang í veröldinni allri og ég tek undir það með honum. Þessi samningur mun einmitt gera okkur kleift að komast inn á þá vaxandi og stækkandi markaði sem er um að ræða í Austur-Asíu og vonandi geta þau ríki sem þar eru og sækjast eftir aðild að GATT, eins og Kína, Tævan og fleiri ríki, gerst aðilar að þessu samkomulagi þannig að þeir markaðir opnist. Það mun hafa veruleg áhrif, m.a. fyrir okkur Íslendinga sem höfum verið að flytja út sjávarafurðir til þessara svæða, að þessi ríki komist inn í þetta samstarf þannig að þau verði bundin af þeim reglum sem þar gilda og það mun auðvelda okkur að flytja út sjávarafurðir til þessara nýju vaxtarsvæða.
    Ég er ekki sammála hv. síðasta ræðumanni um skilgreiningu hans á því hvers vegna þessi hagvöxtur hefur verið jafnmikill og raun ber vitni þar sem hann lét í veðri vaka að það kynni að mega leiða líkur að því að hagvöxturinn stafaði m.a. af ríkisafskiptum. Formúlan sem þessi ríki gefa fyrir sinni velgengni er ósköp einföld og hana má t.d. sjá í nýlegri úttekt tímaritsins Far East Economic Review sem fjallar um 20 ára hagvöxt á þessu svæði. Þar segir að ástæðan fyrir því að þessi ríki hafa náð þessum mikla árangri væri í fyrsta lagi mikil vinna, að menn legðu sig mjög mikið fram um vinnu og ynnu miklu meira en t.d. hér í Evrópu, skattar væru lágir, skattheimta væri lítil í þessum löndum, sparnaður væri mjög mikill og fólk legði fé sitt fyrir og hefði hag af því að spara og fjárfesta og í fjórða lagi að ríkisafskipti væru í lágmarki. Ríkið væri mjög lítið að hlutast til um atvinnustarfsemina og gæfi mönnum frelsi til þess að stunda atvinnu með þeim hætti sem þeir sjálfir teldu hagkvæmast. Það væru þessar fjórar meginforsendur sem byggju að baki hinum mikla hagvexti í Austur-Asíu þannig að það kemur alls ekki heim og saman við þessa úttekt þessa virta tímarits sem hefur fylgst hvað best með þróun efnahags- og atvinnumála á þessum slóðum að heyra það svo hér flutt yfir okkur í hinu háa Alþingi að einhver sérstök ríkisafskipti eða forsjárhyggja sé í þeim löndum sem hafi valdið því að þau hafi náð þeim árangri sem raun ber vitni um.

En ég tel að það hafi m.a. mikið gildi fyrir okkur Íslendinga að þessi ríki gerist aðilar að GATT-samkomulaginu eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni og muni auðvelda okkur að flytja út landbúnaðarvörur eins og fiskafurðir eru kallaðar inn á þessi nýju svæði.