Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:36:18 (2061)


[15:36]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er alveg rétt að það eru fleiri þættir að því er varðar þau svæði sem ég hef stundum kosið að kalla hávaxtasvæði vegna þess að ég held að það sé ágæt þýðing á því enska orði sem venjulega er notað um þessi svæði vegna þess að þau hafa náð ótrúlegum árangri í því að ná upp hagvexti. Hins vegar eru þar auðvitað eins og gengur margir hlutir sem á að varast eins og að því er varðar vinnulaun sem eru svívirðilega lág. Aðbúnaður á vinnustöðum er afleitur og á skólakerfinu er ofstjórn.

Ég tel að það sé ekki gott eins og þeim hlutum er hagað. Það breytir því ekki að við getum lært gríðarlega marga hluti þar af og ég held einmitt að menn eigi ekki í okkar hópi að velta þessum hlutum þannig fyrir sér að við hljótum að leggja áherslu á það að breyta í grundvallaratriðum vinnulöggjöfinni. Ég held að við eigum að nálgast þessi mál fyrst og fremst út frá þeim almennu markmiðum að bæta hagvöxt og afkomu í landinu og það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. þm. að útflutningsleiðin er úrslitaatriði í þeim efnum eins og við alþýðubandalagsmenn höfum lagt áherslu á og ég fagna því að hv. þm. tekur undir með okkur í þeim efnum.