Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:27:20 (2136)


[14:27]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hef nú meiri áhyggjur af því vandamáli sem hér er við að fást og við höfum verið að ræða, um hið háa vöruverð sem ríkir víða á landsbyggðinni, heldur en hvernig fylgi Alþfl. kann að vera frá einum tíma til annars í skoðanakönnunum. Það sem höfuðmáli skiptir náttúrlega er fylgið sem flokkurinn hefur og mun hafa í kosningunum og vonandi mun það koma í ljós að flokkurinn standi þar sterkur þannig að hann geti haldið áfram að berjast fyrir því að lækka vöruverðið í landinu. Þessar umræður hafa sýnt það að Alþb. er ekki treystandi í þeim efnum og Framsfl. er klofinn í málinu. En þessi síðasta ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sannfærði mig um það að þessi till. til þál. sem hér hefur verið til umræðu er mjög brýn og mjög mikilvæg og hér eru orð í tíma töluð sem flutt eru í þessari tillögu. Hv. þm. flutti hér nefnilega ræðu áðan sem raunverulega var rökstuðningur við þessa tillögu um það að nauðsynlegt er að fram fari nákvæm úttekt á vöruverði lífsnauðsynja og verðmun á milli þéttbýlis og dreifbýlis, að kannað verði sérstaklega hvaða ástæður valda slíkum verðmun og síðast en ekki síst að það verði gripið til aðgerða. Og þeir þættir sem koma náttúrlega inn í þessa úttekt og þau svið þar sem aðgerðirnir munu m.a. verða á, það er á skattasviðinu, flutningssviðinu, fjármagnsskattsviðinu, orkuverðið og samgöngurnar. Allt kemur þetta inn. En það þarf að fara að vinna skipulega í málum. Þess vegna var þessi till. til þál. flutt og vonandi mun hún leiða til þess að vöruverð geti lækkað á landsbyggðinni þar sem það er hæst.