Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:04:30 (2156)


[12:04]
     Einar Már Sigurðarson :
    Frú forseti. Ég tel ástæðu til þess að segja hér nokkur orð og lýsa yfir almennum stuðningi við þá tillögu sem hér er fram lögð. Hér er eins og fram hefur komið verið að hreyfa ákaflega mikilvægu máli og rétt að taka undir þá tillögu sem hér er fram lögð svo langt sem hún nær.
    Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Svavari Gestssyni um það að í raun þyrfti tillagan að vera miklum mun víðtækari.

    Það er nefnilega þannig að það er æði margt nám sem fólk verður að stunda fjarri heimabyggð sinni sem t.d. er ekki lánshæft nám og nefndi hv. þm. nokkur dæmi þar um.
    Það er líka rétt, eins og segir í grg. með þáltill., að staðsetning menntastofnana skiptir auðvitað mjög miklu máli varðandi búsetuþróun og minni ég í því sambandi á könnun sem gerð var á vegum Húsnæðisstofnunar, framkvæmd af Félagsvísindastofnun háskólans, þar sem m.a. var verið að velta upp þeirri spurningu hvað hefði áhrif á búsetuval fólks. Þar kom fram að eitt af því sem mest hafði áhrif var aðgangur að námi í framhaldsskólum. Þess vegna er það auðvitað ákaflega brýnt að það sé gert eins mikið og kostur er í því að jafna þennan aðstöðumun því það liggur auðvitað ljóst fyrir að ekki er hægt að bjóða upp á nám í framhaldsskólum í hverju einasta byggðarlagi í landinu.
    Það er einnig athyglisvert varðandi þennan tillöguflutning sá tímapunktur sem valinn er til þess að leggja tillöguna fram og ekki síður þegar horft er til þess að flm. allir, hv. þm., eru úr stjórnarliðinu. Mér sýnist eðlilegt, vegna þess að hér er verið að leggja til að nefnd verði skipuð til að afla ýmissa upplýsinga að það sé hægt að draga þá ályktun af vali þessa tímapunkts að það sýni traust hv. þingmanna til þeirra sem í ríkisstjórn sitja og eiga síðan að framkvæma hlutina. Þ.e. að þeir telja ekki þessa ríkisstjórn hæfa til þess að framkvæma það sem hér er um beðið og þess vegna sé eðlilegt að nefndin taki til starfa nú en skili síðan væntanlega ekki áliti fyrr en ríkisstjórnin er farin frá og önnur tekin við sem líklegri er til þess að geta framkvæmt slíka hluti sem hér er farið fram á.
    Það er nefnilega þannig að auðvitað hefur á seinni árum stórlega aukist sá vandi fólks sem þarf að senda börn sín til náms, t.d. í framhaldsskólum, og við vitum mörg dæmi þess, eins og hér voru nefnd áðan, að fólk hafi hreinlega hætt við að senda börn sín í framhaldsskóla vegna þess að efnahagsaðstæður hafa ekki leyft því þann munað sem því miður sumir eru farnir að líta á slíkt en auðvitað eiga þetta að vera sjálfsögð mannréttindi sem ekki eiga að vera háð efnahag fólks.
    Svokallaður dreifbýlisstyrkur sem hefur átt að jafna m.a. þennan aðstöðumun hefur auðvitað verið allt of lítill og hefur ekki komið nándar nærri nóg inn í þá mynd að jafna þennan mun. Hv. þm. Svavar Gestsson nefndi eitt dæmi sem á fyrri árum var aukið, þ.e. heimanakstur til framhaldsskóla, og þar er vissulega þáttur sem þarf að stórauka vegna þess að það er auðvitað í tengslum við nútímann að við notum bættar samgöngur til þess að láta nemendur t.d. í framhaldsskólum geta farið á milli frá heimabyggð sinni til skólanna þar sem fjarlægðir eru ekki í dag orðnar meiri en svo að það sé hægt að komast það á til þess að gera stuttum tíma þó svo ekki langt aftur í tíma hafi það verið miklu mun lengri tími sem það tók. Hér þarf því að breyta reglum þannig að hægt sé að taka mið af breyttum aðstæðum.
    Það er einnig rétt sem hv. þm. kom inn á að kostnaður við heimavistir, bæði grunn- og framhaldsskóla skapar gífurlegan aðstöðumun fólks í þessu tilliti. Það er eiginlega með ólíkindum þær reglur sem gilda t.d. varðandi framhaldsskólana þar sem jöfnun er í algjöru lágmarki þarna á milli og þar kemur bæði inn dreifbýlisstyrkurinn og síðan þær reglur sem gilda um þann kostnað sem er af rekstri heimavistanna.
    Þessi munur skapar þann vanda sem er raunverulega lykillinn að því að verið er að mismuna fólki miðað við búsetu og miðað við efnahagsaðstæður. Það er auðvitað hlutur sem við hljótum að velta fyrir okkur hvaða leiðir eru vænlegastar til þess.
    Svo ég komi aftur að efni þáltill. þá er hún auðvitað góð svo langt sem hún nær en ég sakna mjög margra þátta sem þarna þyrftu að koma til og það þyrftu auðvitað að vera þess vegna fleiri atriði sem upp eru talin ef nefnd á annað borð fer að sinna málinu að hún sinni málinu í heild sinni og taki á öllum þeim þáttum sem því tengjast.
    Það er annað, virðulegi forseti, sem ég held að sé rétt að orða hér og það er það að þegar svona mál er rætt þá er auðvitað eðlilegt að hæstv. menntmrh. sé viðstaddur þannig að ég held að það sé eðlilegt að leggja fram þá ósk, þar sem hæstv. menntmrh. er ekki í salnum, að umræðu þessari verði frestað þannig að hann megi taka þátt í henni og það sé hægt að halda umræðunni áfram þegar hæstv. menntmrh. er kominn vegna þess, sem ég sagði áðan, að ég sé ekki betur en hv. flm. séu í raun og veru með flutningi tillögunnar á þessum tímapunkti að gefa það í skyn að hæstv. menntmrh. sem nú situr sé ekki hæfur til þess að framkvæma það sem hér er fram á farið.