Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:20:26 (2161)


[12:20]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það vekur furðu og undrun og athygli hvað stjórnarandstaðan hefur haft lítinn áhuga á málefnum landsbyggðarinnar á þessu kjörtímabili og ekki lagt þeim það lið sem e.t.v. væri ástæða til. Ef til vill er það yfirlýsing um það af hálfu stjórnarandstöðunnar að þessi ríkisstjórn hafi verið og sé landsbyggðarvæn, að hún hafi staðið sig vel við mjög erfiðar aðstæður í þjóðarbúinu, að hún hafi staðið sig vel í málefnum landsbyggðarinnar. Það má líka benda á ýmis dæmi þess efnis, stórátak í samgöngumálum, hafnamálum, fjárfestingar á sviði heilbrigðismála um allt land, heilbrigðisþjónustu til styrktar og eflingar. Það eitt að takast á við uppsafnaðan skuldahala síðasta áratugs í rekstri sjúkrastofnana á landsbyggðinni, það er eitt mál út af fyrir sig sem hægt væri að ræða lengi en það hefur þessi ríkisstjórn þó verið að gera og þar með að styrkja rekstur sjúkrastofnana um landið. Þannig má víða sjá að ríkisstjórnin hafi tekið til hendi í landsbyggðarmálefnum og þar með lagt grundvöll að öflugri búsetu. Það er kannski skýringin á því af hverju stjórnarandstaðan hefur gert málefni landsbyggðarinnar jafnlítið að umræðuefni á Alþingi á þessu kjörtímabili og raun ber vitni. En þó að við hv. stjórnarþingmenn og þingmenn í Alþfl. flytjum tillögu um að ganga enn frekar fram í landsbyggðarmálunum þá er það náttúrlega vitnisburður um það að við ætlum að halda áfram á þessari braut.