Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:58:45 (2196)


[15:58]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni með þann áhuga sem er á vönduðum undirbúningi þessarar miklu kvennaráðstefnu á næsta ári í Peking og tek undir með hv. fyrirspyrjanda sem sagði að það er meginmál að undirbúningsvinnan hér heima fyrir sé unnin, svo best getur þetta komið að gagni. En ég leyfi mér að fullyrða og vísa þá til fyrri dæma af slíkri undirbúningsvinnu að það hefur aldrei fyrr svo skipulega verið efnt til undirbúningsvinnu af þessu tagi með jafnlöngum fyrirvara og nú. Í september 1993 var settur á undirbúningshópur með tveggja ára fyrirvara og það hefur síðan verið gert að sá hópur hefur verið útvíkkaður. Það hefur verið leitað til flestra félagasamtaka sem þessi mál varða. Það er rétt hins vegar að skýrslugerð er ekki lokið, ekki vegna þess að það er vanrækt. Það er lögð mjög mikil vinna í hana og hún verður send eftir því sem ég hef upplýsingar um nú á næstunni, það er forgangsverkefni þess hóps sem nú vinnur að ljúka því.
    Að því er varðar að lokum ákvörðun um það hverjir sæki hina opinberu ráðstefnu fyrir Íslands hönd og hvernig það verði fjármagnað þá hafi ekki verið tekin ákvörðun um það en ég geri ráð fyrir því að það verði gerð tillaga af minni hálfu í ríkisstjórn um fjárframlag en að öðru leyti verður að reikna með því að frjáls félagasamtök komi að því máli einnig.
    En að því er varðar undirbúninginn þá er það ljóst af því svari sem ég hef þegar gefið að tveggja ára fyrirvari að þeim undirbúningi er óvenjulega langur og það hefur verið leitast við að leita til allra þeirra samtaka, hvort heldur er stjórnarsamtaka eða almennra félagasamtaka og virkja starfskrafta þeirra í þessu undirbúningsstarfi.