Framlagning skattafrumvarpa og störf þingsins fram að jólahléi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:48:28 (2205)


[13:48]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst örstutt um verkfall sjúkraliða. Þó ég sjái ekki að það sé beinlínis um störf þingsins þá er sjálfsagt að greina frá því að það hafa verið haldnir einir 38 samningafundir. Það liggja fyrir tilboð af hálfu samninganefndar ríkisins og sjúkraliðafélagið hefur lagt fram skýrar kröfur að sínu leytinu til. Ég tel að samninganefnd ríkisins reyni fyrir sitt leyti allt sem hægt er til að ná samkomulagi í þessari viðkvæmu deilu. Ég átti fund með formanni sjúkraliðafélagsins og framkvæmdastjóra í hádeginu og það voru hreinskilnar viðræður og ég mun í framhaldi af þeim ræða við mína samninganefndarmenn og vænti þess að það fari jafnframt fram viðræður innan Sjúkraliðafélags Íslands til þess að freista þess að hægt sé að koma deilunni í þann farveg sem helst gæti skilað árangri.
    Vegna annarra atriða sem hér hafa verið nefnd þá er það nú vonum síðar að háttvirt stjórnarandstaða skuli standa hér upp og kvarta undan því að ekki komi frv. frá ríkisstjórninni. Ég hef satt að segja átt von á því á undanförnum dögum þannig að það kemur ekkert á óvart. Ég vil taka undir það að mér finnst ríkisstjórnin vera mjög sein á ferðinni með sín frv.
    Ég vil segja það hér að það er gert ráð fyrir því að frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum komi fram síðar í þessari viku. Þessi mál eru til umræðu núna í þingflokkum stjórnarflokkanna og verða væntanlega kláruð á fundum á morgun. Skattafrv. mun koma fram. Ég tek það skýrt fram að það er ólíkt með frv. nú og oftast áður að það er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum í sköttum og á tekjuhliðinni og þess vegna er um einfaldar breytingar að ræða.
    Loks vil ég segja frá því að það liggur fyrir frv. um virðisaukaskatt og sjálfsagt má búast við frv. um vörugjald sem ekki þarf að afgreiðast fyrir áramót.