Lyfjaverslun Íslands hf.

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 15:49:21 (2219)


[15:49]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram vegna orða hv. síðasta ræðumanns að ég kannast ekki við það, ég skal ekki útiloka að það sé einhver misskilningur af minni hálfu, að ég hafi rofið samkomulag eða farið í bakið á einhverjum þegar ég legg þetta frv. fram sem hér er til umræðu. Ég rakti það í minni framsöguræðu að í umræðum sem urðu, bæði á þingi og eins á milli manna, var á það fallist að frv. var breytt í nefnd, frv. var breytt á þann veg að ekki var heimilt að selja allan hlut ríkisins heldur skyldi ráðherra vera heimilt að selja helming hlutabréfanna strax en til þess að selja síðari helminginn yrði að leita samþykktar Alþingis. Hugmyndin var í upphafi að gera það þannig að setja það í 6. gr. fjárlaga eins og venja er til um og skýrt kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að oft hefur verið gert. Það var og gert. Það kom fram í því frv. eins og eðlilegt má teljast.
    Ástæðan fyrir því að nú er lagt fram sérstakt frv. er sú að salan gekk betur en nokkur þorði að vona og það er niðurstaða þeirra sem um þessi mál hafa fjallað að það sé heppilegt að nota tækifærið núna þegar markaðurinn er með þessum hætti til þess að selja seinni partinn. Ég kannast ekki við það að ég hafi nokkurn tíma gert samkomulag, hvorki við framsóknarmenn né aðra, um að lofa því að koma ekki með frv. þessa efnis fyrr en eftir einhvern tiltekinn tíma. Það mál vel vera að það hafi verið í huga einhverra framsóknarmanna eðlilegt og eðlileg niðurstaða, en ég kannast ekki við það að ég hafi gert það samkomulag. Af því að ég hafði heyrt þetta þá talaði ég við einn fulltrúa Sjálfstfl. í nefndinni, reyndar fyrrum formann nefndarinnar. Hann kannaðist ekki við að slíkt samkomulag hefði verið gert og vann hann í nefndinni að þessu máli eins og menn vita.
    Hér er áreiðanlega um einhvern misskilning að ræða og það var alls ekki meiningin að fara í bakið á einum eða neinum. Þetta vil ég taka skýrt fram.