Lyfjalög

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 16:14:42 (2226)


[16:14]
     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir ýmsar þær athugasemdir sem hafa komið fram hjá þeim sem hafa fyrirvara um þetta mál. Ég ætla hins vegar ekki að fjalla efnislega frekar um þetta frv., enda var ég fjarstödd endanlega afgreiðslu málsins úr hv. heilbr.- og trn. en varamaður sat þá fyrir mig hér á hinu háa Alþingi. Ég hlýt þó að segja að mér finnst afar sérstakt að fjórir nefndarmenn séu með fyrirvara í frv. sem nefndin sjálf flytur. Enn fremur finnst mér það nokkuð sérstakt og hef ekki raunar séð það fyrr að þessir fyrirvarar komi fram í greinargerð frv. en þar segir í lok greinargerðar, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Guðrún J. Halldórsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Sigríður A. Þórðardóttir gera fyrirvara við frv. þetta og munu gera grein fyrir þeim við umræður um málið.``
    Mér skilst að þetta hafi verið nokkurt umhugsunarefni hjá nefndadeild hvernig ætti að leysa úr þessu máli og hvernig með skyldi fara, með þessa fyrirvara þar sem Alþingi starfar nú í einni deild og því bara ein deild sem fjallar um heilbrigðis- og tryggingamál. Ég held að það væri kannski rétt að skoða þetta betur og athuga hvort ekki væri hægt að viðhafa önnur vinnubrögð.