Virðisaukaskattur

50. fundur
Miðvikudaginn 07. desember 1994, kl. 01:05:51 (2302)


[01:05]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessari fyrirspurn. Ég er nú ekki sérfræðingur í þessum efnum en ég hygg að svarið liggi í því að grundvallaratriðið er það að skattinn á að greiða um leið og afhending vörunnar á sér stað en ekki þegar greiðslan kemur. Hugmyndin er auðvitað einnig sú að fyrsta greiðslan sé þá skattgreiðsla og það eigi ekki að vera í valdi þeirra sem eiga viðskipti saman að geta frestað greiðslu á skatti sem á að lenda hjá ríkissjóði. Þannig að ég tel að það sé ekkert óeðlilegt við það að menn verði skattskyldir um leið og varan er afhent til þess aðila sem á að nota hana þótt greiðslan fari fram síðar, enda er ætlast til þess að skattlagningin eigi sér stað um leið og afhendingin á sér stað. Ég býst við að þetta séu rök þeirra manna sem semja skattalögin, en skal viðurkenna að ég er ekki fræðimaður á því sviði.