Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 10:49:24 (2368)


[10:49]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst nota þetta tækifæri til að fagna því að þessi endurskoðun á félagskerfi landbúnaðarins er nú að verða að veruleika á því formi að til eru að verða ein heildarsamtök bænda eða landbúnaðarins. Ég held að það sé að mörgu leyti mjög merkilegt að þrátt fyrir allt, ýmsa erfiðleika og hindranir sem menn hafa þurft að yfirstíga í þessu ferli er nú að hilla undir þennan veruleika og mættu að mínu mati margar aðrar atvinnugreinar taka sér það til fyrirmyndar. Landbúnaðurinn hefur mætt breyttum aðstæðum og ýmsum erfiðleikum m.a. með því að fara í gegnum umræðu og skoðun á því hvernig hann gæti styrkt stöðu sína með því að endurskipuleggja sitt félagskerfi eða sín samtök þannig að úr yrðu ein heildarsamtök fyrir greinina.
    Ég vil þá líka taka það fram í leiðinni af því að okkar nefndarmaður var fjarstaddur afgreiðslu málsins í nefndinni að Alþb. styður að sjálfsögðu þetta frv. og hefur reyndar lengi gert og lengi hvatt til sameiningar bændasamtakanna.
    Ég velti því líka fyrir mér hvort ekki væri ástæða til þess að ýmsar aðrar greinar tækju þetta fordæmi til íhugunar. Mér verður hugsað til málefna sjávarútvegsins þar sem mörg samtök gæta hagsmuna hinna einstöku aðila í greininni og er þá skiptingin ekki einvörðungu faglegs og stéttarlegs eðlis eins og átti við um landbúnaðinn heldur beinlínis þannig að mörg samtök mismunandi hagsmunahópa innan greinarinnar eru starfandi með þeim afleiðingum sem óþarft er að rekja fyrir hv. þm. að oft hefur gengið misvel að ná mönnum þar öllum saman.
    Ég vil líka fagna þessu sérstaklega vegna þess að landbúnaðinum mun ekki veita af öllum sínum styrk á komandi árum til þess að mæta þeim óvissutímum sem hann stendur frammi fyrir.
    Að lokum er það svo ljóst, hæstv. forseti, að þessar breytingar kalla á endurskoðun á allri löggjöf landbúnaðarmálanna og ég vænti þess að hv. landbn. hafi að einhverju leyti velt því máli fyrir sér. Ég tel mjög mikilvægt að því verði komið í farveg að einhver taki að sér að hafa forgöngu um þau mál. Að mörgu leyti væri eðlilegast að mínu mati að skipuð yrði sérstök nefnd í það verkefni en aðalatriðið er þó að einhver beri ábyrgð á því verki og skili því hingað inn í formi frumvarpa sem þurfa að koma og lúta að heildstæðri endurskoðun á löggjöf landbúnaðarins í framhaldi af þessum breytingum.
    Hæstv. forseti. Að öðru leyti er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta mál. Þó það gæti vissulega gefið tilefni til að ræða ýmislegt í stöðu landbúnaðarins þá mun ég ekki gera það að svo stöddu en fyrst og fremst endurtaka það að ég fagna því að þessi sameining samtaka landbúnaðarins er að verða að veruleika.