Tilkynning um dagskrá

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 13:34:45 (2407)


[13:34]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að ítreka þá afstöðu mína að ég tel óeðlilegt að rætt sé um meira en eitt mál í einu við þessar aðstæður. Þegar óskað er eftir auknum ræðutíma til að fjalla um mikilvægt mál, þegar heill þingflokkur leggur fram slíka beiðni, liggur að sjálfsögðu á bak við sá vilji viðkomandi að hafa rýmri tíma til þess að ræða það mál sem beiðnin beinist að. Við þær aðstæður tel ég óeðlilegt að öðru dagskrármáli sé hnýtt þar aftan við. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að þegar ítarleg umræða hefur farið fram um aðalmálið, það fyrsta sem kemur fyrir af þessum tveimur eða reyndar þremur frv. sem nú hefur verið dreift og tengjast málinu verði að sama skapi styttri umræður um hin. En ég er ekki sammála því að þessi háttur verði hafður á og vænti þess að forseti taki það til greina. Ég hef skilið þetta

ákvæði svo að því sé fyrst og fremst beitt þegar algjör samkomulagsmál eru á ferð sem enginn gerir ágreining við að séu rædd samtímis en ekki þegar um er að ræða stórmál sem ágreiningur kann eða er líklegur til að verða um og alls ekki þegar svo háttar til að þingflokkur hefur borið fram ósk um að ræðutíminn verði tvöfaldaður eða ákveðið að nýta sér rétt sinn sem ég, ef ég man rétt, er fyrst og fremst um að ræða að menn eigi þann rétt að fá tvöfaldan umræðutíma ef eftir því er leitað bréflega af hálfu eins þingflokks. Þannig að ég fer fram á það að umræðan verði venjubundin og ræðutíminn tvöfaldur eins og óskað hefur verið eftir.