Átak í málefnum barna og ungmenna

52. fundur
Fimmtudaginn 08. desember 1994, kl. 16:38:02 (2437)


[16:38]
     Flm. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið. Þær hafa verið mjög málefnalegar og ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir það hvernig hún tók undir þetta. Hæstv. félmrh. nefndi frv. um breytingu á lögum um vernd barna og ungmenna í þá veru að koma á fót barnaverndarstofu. Það væri mjög verðugt hlutverk þeirrar barnaverndarstofu ef að lögum verður að hún mundi hrinda af stað slíku átaki sem hér hefur verið nefnt í þessari þáltill.
    Ég er vissulega ekki heldur með þessari þáltill. að vanmeta þann árangur sem hefur náðst. Ég nefndi það áðan að ég teldi að þetta átak gæti byggst á þeim lögum sem eru í gildi og þá einnig með þeim úrræðum sem koma fram í breytingunum sem nú liggja fyrir þinginu. Ég held því að við höfum allar forsendur til þess að gera slíkt átak eins og hér er lagt til og eigum að horfa til þeirra laga og reglugerða sem við höfum í þessum málum.
    Það er leitt til þess að vita að hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, skuli ekki vera hér stödd lengur því mér fannst ákveðinn misskilningur koma fram í hennar máli sem benti til þess að hún hefði ekki hlustað á framsöguræðu mína og m.a. það að hér þýddi ekki endalaust að vera að koma með ályktanir og skýrslur, heldur að gera eitthvað, því að það voru einmitt lokaorð mín í framsöguræðu minni að ég teldi að bæði lög og reglugerðir væru til. Búið væri að gera margar og miklar skýrslur um þessi mál og nú þyrftum við að láta verkin tala. Ég held að hún hafi misskilið þetta að einhverju leyti.
    Það má einnig minna á að það er vissulega til fullt af skýrslum og beiðnum um ýmsar athuganir og m.a. var hv. 14. þm. Reykv. aðili að beiðni um skýrslu sem nokkrar konur báðu um á 110. löggjafarþingi sem var um félagslega þjónustu við foreldra vegna barneigna, uppeldis og umönnunar barna. M.a. voru þarna allar þingkonur Kvennalistans ásamt hv. þm. og fleirum. Það er vissulega rétt að það hafa verið gerðar margar skýrslur og ályktanir um þessi mál, en ég held að við verðum samt sem áður að halda áfram að halda þessum málum vakandi, ýta á það að eitthvað sé gert og ég mótmæli því að hér sé bara einhver orðaflaumur á blaði. Það er það ekkert frekar en í þeim málum sem hv. þm. hefur beitt sér fyrir eins og málefni um umboðsmann barna sem hún flutti hér ár eftir ár og er orðið að lögum núna. Ég held einmitt að það þurfi aftur og aftur að tala um þessi mál og mér finnst tilvalið að gera það núna á þessu ári sem er ár fjölskyldunnar eins og ég nefndi áðan. Það er mjög líklegt að með því að halda einmitt áfram að tala um þetta mál aftur og aftur verði það til þess að eitthvað verði gert.
    Hv. þm. Ingi Björn Albertsson nefndi að það væri eðlilegt að setja tímamörk um þetta. Ég hafði hugsað mér að þetta framkvæmdaátak næði yfir fjögur ár. Ég nefndi einnig að Norðmenn hafa gert mikið í þessum málum og sett sér framkvæmdaáætlun til þriggja ára þannig að vissulega erum við að tala um einhver tímamörk. Ég vildi ekki setja fram í þessari tillögu að við ættum að byrja þetta átak kannski 1. júní eða 1. jan. á tilteknu ári heldur yrði þetta að hafa eðlilegan framgang og ég held að samt sem áður muni verða hægt að setja sér svona markmið sem gildir ákveðinn tíma.
    Hv. þm. nefndi einnig agaleysi í skólum og það hafa reyndar fleiri komið inn á. Ég er ekki með það sérstaklega í þessum tilmælum sem ég nefndi. Það er aldrei hægt að taka tillit til allra hluta í svona tillögu, en ég tek undir það með þeim sem hafa nefnt þetta og ég held að því miður hafi tilhneiging verið til þess undanfarið af hálfu foreldra að ýta þessum málum frá sér, ýta ábyrgðinni yfir á skólana. Það eru alltaf skólarnir og kennararnir sem eiga að sjá um það að kenna börnunum aga í skólum og foreldrarnir vilja frýja sig sjálfa ábyrgð á því. Það er líka oft vegna þess, eins og hv. 14. þm. Reykv. nefndi, að þau hafa hreinlega ekki haft tíma til að sinna uppeldi barna sinna. Ég vil í þessu sambandi minna á þá tillögu sem við kvennalistakonur höfum lagt fram um foreldrafræðslu. Þar held ég að nokkuð sé tekið á þessu. Og síðan get ég nefnt að ég hef undir höndum fréttabréf Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum þar sem talað er um ákveðninámskeið fyrir foreldra. Þar er einmitt nefnt að margir foreldrar séu svo hræddir við að gera mistök í uppeldi barna sinna að þeir eigi erfitt með að gera það upp við sig hvað megi og megi ekki og hvernig þeir eigi að halda á agamálum í sambandi við börn. Ég held að það sem veldur agaleysi í skólunum fyrst og fremst sé að aginn kemur ekki með börnunum að heiman. Þetta á sér margar og flóknar skýringar, m.a. í ýmsum uppeldisstefnum sem hafa verið í gildi sl. 20 ár og er of langt mál að fara út í að ræða hér, en ég held að skólarnir geti auðvitað í samráði við foreldrana tekið á þessu máli líka, en fyrst og fremst tel ég að það sé foreldranna að leita þessara leiða og hugsanlega þurfa þeir aðstoð og fræðslu til þess að geta tekið á málinu.
    Ég vil að lokum þakka aftur þessar umræður sem hafa orðið hér. Það sýnir sig að það er mikill og vaxandi áhugi fyrir því á Alþingi að ræða um málefni barna og ungmenna og fjölskyldunnar í heild. Ég held að þessi tillaga geti hugsanlega orðið til þess að það verði gert eitthvað meira en fá skýrslur og gera ályktanir um einhver tiltekin atriði.