Skuldastaða heimilanna

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 13:18:59 (2481)


[13:18]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Við þinglok í vor var rætt um skuldastöðu heimilanna út frá skýrslu félmrh. og þessi umræða er tekin hér upp að nýju og ég fagna því. Við umræðuna í vor gerði ég grein fyrir að ég hefði flutt frv. um afnám lánskjaravísitölu sl. 8 ár. Það er verðtryggingin og lánskjaravísitalan sem er orsök þess vanda sem við glímum við í dag. Ég rakti hvernig þetta frv. hefur ár eftir ár verið í þingsölum, nefnd hefur ekki skilað því frá sér inn þannig að hv. alþm. geti greitt atkvæði, já eða nei, um þetta mál. Það er furðulegt hvernig legið er á þessu máli og það sýnist enn vera gert. Það var lagt að nýju fram í haust, ég var upphaflega einn flm. að frv., síðan hefur flutningsmönnum fjölgað, eru nú úr öllum flokkum. Það er meiri hluti fyrir þessu máli hér á hv. Alþingi og er óeðlilegt að enn skuli það ekki koma til atkvæða.
    Upprunalegur tilgangur laganna um lánskjaravísitölu var að verðtryggja bæði lán og laun. Kaupgjald var hins vegar fljótlega tekið úr sambandi. Það var hætt að verðtryggja kaup en verðtrygging fjármagns hélt áfram og til þessa dags.

    Síðan var lánskjaravísitölunni breytt þannig að hin minnsta kauphækkun t.d. lágtekjufólks veldur hækkun lána að sama skapi. Auðvitað á annaðhvort að verðtryggja allt eða ekkert. Hver fann upp þetta kerfi sem við notum og er óhæft? Er þetta til að hjálpa hinum minni máttar? Er þetta hægt, Matthías? var einhvern tíma spurt.
    Það er lánskjaravísitalan sem er rót þess vanda sem við ræðum hér í dag. Hún er rót vanda heimilanna, að verðtryggja fjármagn en ekki kaup. Það er þarna sem á að taka á til að koma í veg fyrir rót þessa meins. Að þessu meginmáli hafa ræðumenn títt komið í umræðunni.