Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:07:00 (2514)


[17:07]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að við teljum fulla þörf á Suðurlandi að stækka sjúkrahúsið á Selfossi og höfum í allmörg ár lagt verulega áherslu á það. Þannig að ég vænti að fjárlaganefndarmenn skoði það vandlega.
    Hvað stöðuna varðar hef ég bréf í höndum frá stjórninni um þann rekstrarvanda sem blasir við eftir þetta ár. Það er afrit, sem þingmönnum var sent, af bréfi til hæstv. heilbrrh. sem er komið á hans borð, þannig að þær tölur sem ég hef farið með eru staðreyndir.
    Auðvitað kann það að vera að í því sé heilmikil fullyrðing af minni hálfu, að menn hafi misnotað aðstöðu sína. Ég skal ekkert halda því í sjálfu sér til streitu að svo sé. Hins vegar vakna grunsemdir og það er gott og vel ef menn halda áfram þeirri vinnu sem þeir eru í og fara þá áfram yfir málefni sjúkrahúsanna, láta því starfi ekki lokið. Ég vil þá spyrja hv. þm. hvort fjárln. og þá ekki síst meiri hlutinn, muni halda áfram því starfi að fara yfir þennan rekstrarvanda sem virðist vera hjá mörgum sjúkrahúsanna.