Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:35:20 (2525)


[17:35]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Nú er hæstv. fjmrh. orðinn dularfullur eins og andatrúin, svo ég taki orð hv. 5. þm. Suðurl. og geri þau að mínum. Auðvitað þýðir þetta að það er ekkert samkomulag enn þá í stjórnarflokkunum þó komið sé fram að jólum. Það verður ekkert samkomulag um þessi mál fyrr en í fyllingu tímans, hvenær sem sú fylling tímans verður nú. (Gripið fram í.) Og hvaða tími sem það er nú. Hins vegar finnst mér hæstv. fjmrh. bjartsýnn ef hann heldur það virkilega að niðurstaða fjáraukalaga fyrir þetta ár, sem væntanlega verða lögð fram á næsta ári, verði lægri en niðurstöðutölur sýna núna. Það eru einfaldlega ekki öll útgjaldamál komin fram og fjárln. á enn þá eftir að fjalla um stórútgjaldamál. Það þýðir þá ekki annað en að það á hafna öllu sem eftir er. Þá held ég að fari nú að hvessa a.m.k. hjá sveitarstjórnarmönnunum ef það á ekki að sinna Innheimtustofnuninni neitt svo eitt dæmi sé tekið.