Fjáraukalög 1994

53. fundur
Föstudaginn 09. desember 1994, kl. 17:45:26 (2528)


[17:45]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Já, það er ár á morgun síðan síðast var skrifað undir samkomulag. Það er sannarlega ástæða til að vonast til þess að það verði skrifað undir annað samkomulag hvort sem það verður á morgun eða annan dag og það verði að minnsta kosti staðið betur við það en þetta samkomulag sem þarna var skrifað undir og er að verða ársgamalt því hvorki hefur nú gengið né rekið fram að þessu við það sem hæstv. ráðherra var að lýsa hér áðan að hefði staðið til að gera og hefði verið lofað. Síðan hefur hæstv. ráðherra ásamt sínum félögum lagt í einn slaginn enn við sveitarfélögin um þá hluti sem stóðu í þessu plaggi. Ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra hafi skrifað sveitarfélögunum bréf í þeim tilgangi að fá þau til að leggja áfram peninga í það sem lofað var að þau þyrftu ekki að setja peninga í. Þannig að ég held að það sé full ástæða til þess að menn gangi nú hægar og stilltar um í samskiptunum við sveitarfélögin og ég legg til að hæstv. ráðherra geri það nú heldur en gert hefur verið á undanförnum árum. Því ferill hæstv. ríkisstjórnar er satt að segja ekki til fyrirmyndar og það mun taka langan tíma fyrir þær ríkisstjórnir sem taka við af þessari að koma samskiptum við sveitarfélögin í eðlilegt horf eftir þetta kjörtímabil.