Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 15:24:36 (2542)


[15:24]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvaða reglur gilda um lán til námsmanna erlendis til greiðslu á skólagjöldum. Svarið við þeirri spurningu er svohljóðandi:
    Almenn lán til greiðslu skólagjalda erlendis eru einungis veitt til framhalds háskólanáms. Námsmönnum í grunnháskólanámi og sérnámi erlendis standa til boða sérstök lán á markaðskjörum vegna skólagjalda. Á námsárunum 1991--1992, 1992--1993 og 1993--1994 gilti sú regla hjá Lánasjóði ísl. námsmanna að samanlögð lán til námsmanna vegna skólagjalda máttu ekki nema hærri upphæð en 27 þús. Bandaríkjadölum. Við endurskoðun úthlutunarreglna fyrir yfirstandandi námsár, þ.e. námsárið 1994--1995, var þessu hámarki breytt þannig að frá og með því námsári mega samanlögð lán námsmanna vegna skólagjalda nema mest 31 þús. Bandaríkjadölum.
    Í öðru lagi er spurt hvaða skýringar séu á því að nokkrum námsmönnum á lokastigi í námi erlendis, þ.e. Bretlandi, er ekki lánað að fullu fyrir skólagjöldum. Skýringarnar eru þær að í einstaka tilvikum, í tveimur eða þremur tilvikum að mér er sagt, vildu námsmenn í Bretlandi fá lán til skólagjalda í samræmi við þá hækkun sem ákveðin var námsárið 1994--1995 og sem ég var að greina frá. Sú ákvörðun lánasjóðsstjórnarinnar er hins vegar ekki afturvirk, þ.e. þeir námsmenn sem fengu skert lán á fyrra námsári fá lán samkvæmt þágildandi reglu. Þeir námsmenn geta hins vegar fengið frekara lán vegna skólagjalda á námsárinu 1994--1995 eins og ég hef greint frá. Þetta er skýringin.
    Í þriðja lagi er svo spurt hvort fyrirhugaðar séu breytingar á reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna um greiðslu skólagjalda í skólum erlendis. Því er til að svara að úthlutunarreglur Lánasjóðs ísl. námsmanna eru endurskoðaðar árlega af stjórn sjóðsins. Skv. 7. gr. reglugerðar nr. 210/1993, um Lánasjóð ísl. námsmanna,

skulu reglurnar gefnar út fyrir 1. júní ár hvert. Þar sem vinna við endurskoðun reglnanna fyrir námsárið 1995--1996 er ekki hafin er of snemmt að segja til um það hvort reglum um lán fyrir skólagjöldum verður breytt fyrir það námsár.