Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

55. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 16:01:01 (2558)


[16:01]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka dómsmrh. fyrir svör. Það er athyglisvert að heyra það að Landhelgisgæslan hefur að meðaltali farið um borð í eitt skip á dag frá ársbyrjun 1972 og er það vissulega athyglisvert og af hinu góða. Við lestur dómsmrh. áðan fannst mér umhugsunarefni hvort ekki væri nauðsynlegt að efla enn frekar eftirlit á miðunum. Ég verð að segja það að ég hefði ekki átt von á því --- ég segi kannski ekki að ólestur væri svo mikill sem raun ber vitni um --- heldur að vandamálin væru slík sem hér voru upp talin eins og t.d. það að athugasemdir eru gerðar vegna búnaðarskoðunar, 236 sinnum eru athugasemdir vegna björgunarhringja og 117 sinnum eru gerðar athugasemdir um að sjómenn hlusti ekki á neyðarbylgjuna.
    Þá er líka annað athyglisvert og það er varðandi lögskráninguna þar sem ýmsir skráðir skipverjar voru ekki um borð í skipinu og skipstjórinn sjálfur, sá lögskráði, var ekki um borð. Þetta er með slíkum ólíkindum að ég tel að hér þurfi virkilega að taka á, ekki eingöngu Landhelgisgæslan heldur sjómenn sjálfir. Þeir eiga að taka á þessum öryggismálum því að þeir geta ekki ætlast til þess að aðilar í landi passi þá og fylgist með þeim. Þeir verða að gera það sjálfir. Og að það skuli koma fyrir að 84 skip séu aðvöruð oftar en einu sinni og 14 skip oftar en þrisvar sinnum finnst mér með ólíkindum. Það setur að manni ugg að öryggismál skuli ekki vera betur við höfð og í heiðri höfð af sjómönnum en raun ber vitni. En ég vil að öðru leyti þakka ráðherra fyrir gott svar.