Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 19:03:38 (2580)


[19:03]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af orðum hæstv. félmrh. vil ég segja að ég var ekki að reyna að gera ákvæðið varðandi sambýli og flutning fólks af Kópavogshæli yfir á sambýli tortryggileg heldur var ég einungis að vekja athygli á því hvort það yrðu flutt stöðugildi með sem ávallt hefur verið inni í myndinni. Hæstv. ráðherra staðfesti það og því fagna ég. En ákvæðið hefði mátt skilja svo að það ætti að fjármagna alfarið reksturinn á sambýlunum úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.
    Varðandi húsaleigubætur og að þær skerði ekki bætur almannatrygginga þá var farið yfir þetta af lögfræðingum heilbrrn. og félmrn. þegar húsaleigubótalögin voru samþykkt. Samdóma álit þeirra var að það þyrfti að breyta lögum um almannatryggingar og það yrði gert á þessu hausti. Ég er ekkert að efast um að við þetta verði staðið, en ég vil vera örugg á því að það sé lagagrundvöllur fyrir því og að það sé skoðað sérstaklega. Ég hef ekkert fyrir mér í því efni nema álit lögfræðinga sem skoðuðu þetta á sínum tíma, sem sögðu að það yrði að breyta lögum um almannatryggingar vegna þessa.
    Síðan vil ég vekja athygli á því, af því að hæstv. ráðherra nefndi það ekki, að mér sýnist að það þurfi að koma í Framkvæmdasjóð fatlaðra um 50--70 millj. á þessu ári (Forseti hringir.) ef það á að fara að lögum.
    ( Forseti (GunnS) : Forseti verður að benda hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.)
    Já, ég vík úr ræðustól.