Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 22:10:23 (2596)


[22:10]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í þeim tölum sem ég nefndi er meðtalinn afsláttur raforkufyrirtækja en ekki sú tilfærsla sem gerð var með upptöku virðisaukaskattskerfisins. En það er bara einfaldlega staðreynd að niðurgreiðslur og afsláttur vegna húshitunar hefur aukist um 81% á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Það er hins vegar ekki nóg til að ná því markmiði sem orkujöfnunarnefnd setti sér árið 1991. Ástæðan er m.a. sú að orkufyrirtækin, og þá fyrst og fremst Landsvirkjun, hafa ekki fylgt ríkisvaldinu eftir með afslátt sinn eins og orkuverðsjöfnunarnefndin gerði ráð fyrir. Með öðrum orðum hefur ríkið stigið fleiri skref til jöfnunar orkuverðs með niðurgreiðslum en orkufyrirtækin, og þá einkum og sér í lagi Landsvirkjun, hafa gert með afslætti á gjaldskrá. Þó er eitt orkufyrirtæki sem hefur staðið við sitt, ef svo má segja, það er Orkubú Vestfjarða, enda munar nú ekki nema nokkrum þúsundum á því að kyndingarkostnaður vísitöluhússins á svæði Orkubús Vestfjarða sé sá sami og sá meðaltalskyndingarkostnaður sem orkuverðsjöfnunarnefndin miðaði við sem er í dag 68.300 kr. á vísitöluíbúðina, miðað við verðið 1991 60 þús. kr. eru það í dag 68.300. Ég þori ekki að fullyrða það, virðulegi forseti, en ég man ekki betur en þessi mismunur sé nú eitthvað á milli 3.000 og 4.000 kr. sem betur þyrfti að gera til að þessari viðmiðun væri náð á svæði Orkubús Vestfjarða en mun meira þarf hins vegar að gera á svæði Rariks.