Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 22:12:30 (2597)


[22:12]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er í raun sammála hæstv. ráðherra um að það hefur verið gert nokkuð mikið í þessa veru á svæði Orkubús Vestfjarða því þeir hafa jafnvel tekið á sig hækkanir Landsvirkjunar án þess að láta það koma fram í verðlaginu.
    En til frekari skýringar á þeim upphæðum sem hæstv. ráðherra er að nefna og nú kemur það fram, sem ég gat ekki séð í grein hans í Morgunblaðinu, að þarna væri einnig reiknað með afslætti og þátttöku orkufyrirtækjanna þá vildi ég spyrja hann að því hvort inni í þessum 80% sem hann nefnir sé einnig sú lækkun sem Orkubú Vestfjarða t.d. hefur tekið á sig í formi hækkaðra afskriftareglna, þ.e. að afskriftirnar nái yfir lengra tímabil og komi þá því til góða að lækka orkuverðið og hvort þessar afskriftabreytingar séu einnig reiknaðar með í þessu og hvort ekki sé þá hægt að beita sér fyrir því að Landsvirkjun taki svipað á málinu og hækki afskriftatíma sinna virkjanna.