Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Mánudaginn 12. desember 1994, kl. 22:16:40 (2600)


[22:16]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum fyrir árið 1995 er að mörgu leyti nokkuð frábrugðið fyrri frv. sem hafa komið inn á Alþingi um þetta leyti á undanförnum fjórum árum. Það er að því leyti frábrugðið að það felur ekki í sér að mínu viti eins róttækan niðurskurð og breytingar og mörg fyrri frv. hafa gert. En það sem hefur verið öllum þessum frv. sameiginlegt er að menn hafa alltaf ætlað að spara. Tilgangurinn hefur alltaf verið sá að menn hafa verið að leggja í fjárlagafrv. grunninn að stórkostlegum sparnaði ár eftir ár og alltaf hafa þessi frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum verið flutt til þess að tryggja að sparnaðurinn næðist eins og hann er settur fram í fjárlagafrv.
    Ég tek undir að það getur verið afskaplega mikilvægt að spara. Þó skiptir höfuðmáli hvernig menn ná fram sparnaði hverju sinni.
    Á bls. 324 í fjárlagafrv., þar sem fjallað er um heilbr.- og trmrn., er sagt að í reikningi ársins 1991 hafi útgjöld heilbr.- og trmrn. verið 50 milljarðar 446 millj. kr. Í frv. ársins 1995 er áætlað að útgjöldin geti orðið 45 milljarðar 376 millj. kr. og þannig hefur, að ég hygg, hæstv. heilbrrh. lýst því yfir að lengst af í tíð hans sem hæstv. ráðherra hafi ríkisstjórninni tekist að spara 5 milljarða á föstu verðlagi. En þegar menn líta örlítið betur á þetta og velta því fyrir sér hvernig fjárlagafrv. hafi staðist og hvernig þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur gert á hverjum tíma á grundvelli þeirra laga, sem hafa verið samþykkt um ráðstafanir í ríkisfjármálum, hafi gengið eftir þá fullyrði ég að þessi sparnaður, ef menn miða við árið 1991 hafi alls ekki tekist heldur þvert á móti hafi útgjöldin aukist og fyrir því ætla ég að færa nokkur rök.
    Ef við göngum út frá því, sem ég veit að er rétt, að ríkisreikningur frá 1991 sé réttur og skoðum svo þá óskhyggju sem kemur fram í frv. til fjárlaga fyrir árið 1995 og göngum út frá því að á þessum tölum sé 5 milljarða kr. munur þá vorum við við 2. umr. fjáraukalaga í dag fyrir árið 1994 að samþykkja viðbótarútgjöld í fjárlögum ársins 1994 upp á 2 milljarða kr. Þá eru ekki eftir nema 3 af þessum 5 milljörðum kr. því það þýðir auðvitað ekkert að setja bara tölur á blað og segja að þetta sé svona. Menn verða því og sem betur fer að horfast í augu við raunveruleikann.
    Til viðbótar þessu kom ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn. á fund heilbr.- og trn. þar sem fjárlagafrv. fyrir 1995 var til umfjöllunar og þar fullyrti ráðuneytisstjórinn og það kemur fram í áliti minni hluta heilbr.- og trn. að 2 milljarða kr. vantaði í fjárlagafrv. fyrir árið 1995 til þess að forsendur þess stæðust. Það hefur verið svo að stjórnarandstaðan hefur haft rétt fyrir sér um það hvað kæmi út úr fjárlögum þegar upp væri staðið og nú leggst á sveif með stjórnarandstöðunni í þessum efnum hvorki meira né minna en ráðuneytisstjórinn í heilbr.- og trmrn.
    Gangi þetta eftir er ekki eftir nema 1 milljarður af þeim stórkostlega sparnaði sem ríkisstjórninni hefur tekist bara í þessum stærsta málaflokki ríkisins að spara á kjörtímabilinu. Skoðum aðeins hvernig sá milljarður, sem menn hafa kannski náð að spara, er tilkominn. Sköttum og gjöldum hefur verið velt yfir á notendur þjónustunnar. Fullyrða má að 750 millj. kr. af lyfjakostnaði ríkisins hafi verið velt beint yfir á þá sem kaupa lyf með því að hækka hlutfall þess sem kaupir og notar úr 18% eins og það var árið 1991 upp í 32% eins og það er nú, fyrir utan það að með sífellt fleiri lyfjum, sem koma utan greiðsluþátttöku almannatrygginga, eru menn að velta álögunum yfir á einstaklingana. Þarna eru 750 millj.
    Aðgangurinn sem menn þurfa að kaupa sér að heilsugæslustöðvunum er 350 millj. kr. miðað við 600 kr. greiðslu fyrir hverja komu inn á heilsugæslustöð.
    Í sérfræðilæknishjálpinni hafa menn líka velt útgjöldum ríkisins yfir á einstaklingana sem nemur 500 millj. kr. Bara þessar upphæðir eru 1.600 millj. kr. og tel ég þá ekki tannlækna og fleiri þætti í heilbrigðis- og tryggingamálunum sem velt hefur verið yfir á einstaklingana hér með. Því má hiklaust færa rök fyrir því, virðulegur forseti, að a.m.k. hafi útgjöldin aukist um 600 millj. kr. en sparnaðurinn sé ekki til staðar. Auðvitað er ekki hægt að tala bara um sparnað út frá því sem menn setja á blað og hafa áhuga fyrir að ná. Menn verða að horfa á raunveruleikann og sjá hverjar eru niðurstöðutölurnar þegar menn líta á ríkisreikninginn í lok hvers árs.
    Það eru nokkur atriði í fjárlagafrv. sem maður hefði getað búist við að ætti að tryggja með lagabreytingum í því frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem liggur nú fyrir á hinu háa Alþingi. Gert er ráð fyrir því að spara 850 millj. kr. í lífeyristryggingum. 600 millj. kr. af þessum 850 millj. eru þær hækkanir eða útgjöld vegna eingreiðslna, láglaunabóta, desemberuppbótar og orlofsuppbótar. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að ekki eigi að greiða þessar eingreiðslur á árinu 1995 er yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að ellilífeyrisþegar og öryrkjar eigi ekki að njóta þeirra kjarabóta sem samið verður um í komandi kjarasamningum eða að menn ætli að greiða út 600 millj. kr. og séu þannig í raun og veru að blekkja með því að segja að hallinn á ríkissjóði sé 600 millj. kr. minni en hann er í raun og veru. Það er um þetta tvennt að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar. Annars vegar að ætla ekki að láta ellilífeyrisþegana og öryrkjana njóta þess sem kemur út úr kjarasamningum eða að menn eru að blekkja.
    200 millj. kr. á að spara af þessum 850 millj. með því að skerða uppbótina sem elli- og örorkulífeyrisþegar eru að fá en eins og ég hef sagt áður eru kannski fimm meginbótaflokkar sem ellilífeyrisþegar fá greitt eftir. Það er sjálfur grunnurinn, tekjutryggingin, heimilisuppbótin, sérstaka heimilisuppbótin og svo uppbót til þess fólks sem býr við erfiðustu aðstæðurnar, er með mesta húsnæðiskostnaðinn og er með þyngstan kostnað vegna lyfja og læknishjálpar.
    Í mörgum tilfellum fær fólk greitt, bæði ellilífeyrisþegar og öryrkjar, út úr almannatryggingunum þessar uppbætur fyrir mikinn húsnæðiskostnað þó þeir séu ekki í leiguhúsnæði heldur einfaldlega í eigin húsnæði. 200 millj. kr. á að taka af þessu fólki þrátt fyrir að komi fram í lagafrv. þessarar sömu ríkisstjórnar og ber þetta fram nú sem var lagt fram á 117. löggjafarþinginu, frv. til laga um húsnæðisbætur. Á þskj. 869 á bls. 15, segir svo, með leyfi forseta: ,,Húsaleigubótum er ekki ætlað að skerða bætur bótaþega frá Tryggingastofnun ríkisins.``
    Það er alveg klárt hvað bótaþegi er. Bótaþegi er sá aðili sem þiggur bætur frá Tryggingastofnun ríkisins en hér í fjárlagafrv. er í raun og veru gert ráð fyrir því að skerða eigi, bara vegna húsaleigubótanna einna, bætur og greiðslur til ellilífeyrisþega og öryrkja um 200 millj. kr. þrátt fyrir að annað komi fram í frv. ríkisstjórnarinnar þegar verið var að samþykkja húsaleigubæturnar.
    50 millj. kr. á að ná með almennri endurskoðun á bótum almannatrygginga. Hvað átt er við með þessum 50 millj. kr. getur maður í raun og veru ekki gert sér grein fyrir en ef gera ætti einhverjar breytingar á einstökum bótaflokkum hlyti ríkisstjórnin að koma fram með tillögur um slíkar breytingar í því frv. sem er til umræðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Því held ég að meiningin sé sú að um mitt ár 1995 eigi svo að lækka viðmiðunartekjur þær sem notaðar eru við útreikninga á tekjutryggingu til ellilífeyrisþega og öryrkja að þar geti sparast 50 millj. kr. Sé það gert er auðvitað öllum þessum 850 millj. kr. velt beint yfir á ellilífeyrisþegana og öryrkjana í landinu. Í fyrsta lagi með því að ætla ekki að láta þá njóta þess sem kemur út úr kjarasamningum. Í öðru lagi með því að skerða um 200 millj. kr. hjá þeim sem við erfiðustu aðstæðurnar búa. Í þriðja lagi með því að skerða til viðbótar um 50 millj. kr. um mitt árið 1995 þegar nýtt tekjuviðmið verður ákveðið.
    Í sjúkratryggingum er gert ráð fyrir að spara í lyfjum 200 millj. kr. Það hefur komið fram hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrr í þessum þingsal að 200 millj. kr. er áætlað að ná með því að flýta gildistökuákvæðum nýsamþykktra lyfjalaga er snýr að lyfsölu, lyfjadreifingu og verðlagningu lyfja. Ég spyr: Ef þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, sem væri þá brot á því samkomulagi sem stjórnarflokkarnir gerðu við stjórnarandstöðuna sl. vor að setja ekki af stað fyrr en 1. nóv. 1995 þau ákvæði sem ég nefndi áðan í lyfjamálunum, en hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur lýst því yfir að það eigi að flýta þessu til áramóta. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Af hverju eru þau gildistökuákvæði ekki inni í þessu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða er ríkisstjórnin hætt við að ná þessum 200 millj. kr. sparnaði?
    Þá er eðlilegast, virðulegi forseti, að sá sparnaður verði strax settur út úr fjárlagafrv. sem þar er fyrirhugaður. 100 millj. kr. á að ná með tilvísanakerfi. Enginn um það að hæstv. heilbrrh. hefur fullt vald til þess að koma tilvísanakerfi á og hefur lagastoð til þess. En um leið og spara á 100 millj. kr. með því að auka aðsóknina að heilsugæslustöðvunum, sem óhjákvæmilega verður með því að koma á tilvísanaskyldu frá heimilislæknum til sérfræðinga, ætla menn að spara 50 millj. kr. í heilsugæslunni og líka að íþyngja heilsugæslustöðvunum með því að leggja niður héraðslæknisembættin og færa þau að stærri hluta til inn á heilsugæslustöðvarnar. Auðvitað hljóta allir að sjá að ekki stendur steinn yfir steini í þessum ráðstöfunum.
    Það var ítrekað við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. fyrir árið 1994 að 700 millj. kr. vantaði inn í rekstur sjúkrahúsanna á höfðborgarsvæðinu. Þegar menn hins vegar líta á hvaða ráðstafanir í rekstri sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu voru samþykktar við 2. umr. fjáraukalaga í dag sjá menn að þær 700 millj. kr. sem stjórnarandstaðan hélt ítrekað fram við afgreiðslu fjárlaga að þyrftu til að koma til að sjúkrahúsin næðu endum saman voru þær 700 millj. kr. sem menn voru að samþykkja í dag við 2. umr. fjáraukalaga. Það er óhætt fyrir stjórnarliðið að taka mark á því sem stjórnarandstaðan segir í þeim efnum. Flestallt hefur

gengið eftir og kannski má segja að oft og tíðum hafi stjórnarandstaðan verið svartsýn í þessum efnum en hversu svartsýn sem hún hefur verið þá má eiginlega segja að spárnar hafi gengið eftir, því miður segi ég því auðvitað væri gríðarlega mikilvægt að ná fram sparnaði í þeim stóra málaflokki sem heilbrigðis- og tryggingamálin eru.
    Hræddur er ég um, virðulegi forseti, að menn séu nú með þeim samningi sem gerður hefur verið milli borgarstjórans í Reykjavík og heilbr.- og trmrh. um sameiningu Landakotsspítala og Borgarspítala í Sjúkrahús Reykjavíkur að stíga þar óheillaskref, hæstv. heilbrrh., nema til komi af hálfu ríkisvaldsins ákvörðun um það hvernig verkaskipting skuli vera milli þessara sjúkrahúsa. Með því að sameina þessi tvö sjúkrahús í hér um bil jafnstórt sjúkrahús og Landspítalinn er mun hefjast bullandi samkeppni milli þessara tveggja jafnstóru sjúkrahúsa um takmarkaða fjármuni sem við höfum úr að spila. Reynt verður að byggja upp sömu sérfræðiþjónustuna á báðum spítölunum. Menn fara að keppa um að ná tækjabúnaði inn á sjúkrahúsin þannig að bæði þessi jafnstóru sjúkrahús sem eru Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítalinn berjast fyrir því að ná sama tækjabúnaði inn á stofnanirnar. Þau berjast líka fyrir því að ná sömu sérfræðingunum í sömu sérgreinunum inn á þessar stofnanir og þannig hefst bullandi samkeppni um takmarkaða fjármuni milli þessara stofnana.
    Samkeppnin sem sjúkrahúsin á Íslandi eiga að fá á að koma erlendis frá. Það höfum við sýnt og sannað í heilbrigðisþjónustunni að við stöndum þjóðum allt í kringum okkur fyllilega jafnfætis og framar á sumum sviðum og tek ég hjartaskurðlækningarnar sem dæmi þar sem við höfum náð ótrúlegum árangri og fleiri sérgreinar mætti nefna. Við eigum fyrst og fremst að fá samkeppnina inn í heilbrigðisþjónustuna erlendis frá en ekki að keppa innbyrðis um takmarkaða fjármuni sem við höfum úr að spila milli tveggja jafnstórra sjúkrahúsa.
    Ég skal viðurkenna að hægt er að koma í veg fyrir þessa innbyrðissamkeppni taki ríkisvaldið rösklega á í þessum efnum og ákveði hvernig verkaskiptingin skuli vera milli sjúkrahúsanna og að sú verkaskipting verði tryggð. Það verða menn að gera með því að einn aðili taki ákvörðun um það hvaða sérfræðingur sé ráðinn inn á hvora stofnunina fyrir sig því sérfræðingur sem er ráðinn inn á viðkomandi stofnun kallar á tækjabúnað í sérgreininni. Það þarf líka að vera einn aðili sem ákveður hvaða tækjabúnaður skuli keyptur inn á viðkomandi stofnun vegna þess að þegar búið er að kaupa tækin kallar tækjabúnaðurinn á sérfræðing. Séu þessar ákvarðanir teknar af einum aðila á grundvelli þeirrar verkaskiptingar, sem ákveðin hefur verið milli þessara stofnana, trúi ég því að hægt sé að ná verulegum sparnaði í sjúkrahúsarekstrinum á höfuðborgarsvæðinu. Ég vonast auðvitað til að hæstv. heilbr.- og trmrh. beiti sér fyrir því af krafti að þeirri verkaskiptingu verði komið á þannig að okkur takist í raun að ná fram sparnaði í sjúkrahúsarekstrinum vegna þess að ég tel að mestu möguleikarnir til sparnaðar í dag séu í heilbrigðis- og tryggingamálunum.
    Virðulegur forseti. Þá kem ég að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Hæstv. forsrh. hefur setið ágætlega undir umræðunni en ég sé nú, virðulegi forseti, að hann hefur brugðið sér frá. Ég ætlaði í örfáum orðum að gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar yfirlýsingar og um leið að spyrja hæstv. forsrh. nokkurra spurninga sem mér finnst rétt á þessu stigi þó svo auðvitað að flest af því sem þarna er lagt til --- og nú er hæstv. forsrh. kominn í salinn, ég þakka fyrir það --- muni auðvitað sjá dagsins ljós í lagafrv. sem koma inn í þingið.
    Mér finnst megineinkenni þessarar yfirlýsingar vera að þar eru ítrekuð og endurtekin loforð sem áður hafa verið svikin. Í öðru lagi er verið að lögfesta hluti sem sú ríkisstjórn, sem nú er, ætlar ekki að bera ábyrgð á og ætlar ekki að sjá um að koma í framkvæmd. Í þriðja lagi finnst mér yfirlýsingin því miður bera allt of mikið með sér að hún sé fögur orð um allt of lítið og oft og tíðum hér um bil ekki neitt. Þó skal að viðurkennt að nokkur atriði eru í yfirlýsingunni sem mér finnst vert að gefa gaum og væri betur að þau kæmust í framkvæmd þó ég sé því miður af reynslunni hræddur um að svo verði ekki.
    Í fyrsta lagi samstarf við sveitarfélög um atvinnuskapandi aðgerðir. Hjá fyrri ræðumönnum hefur komið fram að það á að hætta við að svíkja samninginn við sveitarfélögin um að skattleggja þau um 600 millj. kr. Í stað þess á að reyna að ná samningum við sveitarfélögin og svo ég skilji það örugglega rétt þá spyr ég hæstv. forsrh.: Er búið að ná slíkum samningi við sveitarfélögin að þau ætli að fara út í aðgerðir á sínu svæði sem nemi því sama og þau hafa verið að leggja inn í Atvinnuleysistryggingasjóð á undanförnum árum? Sé það niðurstaðan tel ég að menn séu á hárréttri leið í þessum efnum. Mér hefur alltaf fundist vera mjög einkennilegt að draga peninga frá sveitarfélögunum inn í ákveðinn sjóð og síðan eiga sveitarfélögin aftur að skrifa bréf og biðja um að fá þessa peninga aftur til baka. Náttúrlega felst ótrúleg miðstýring og forræðishyggja í þessu og af því að þetta hefur verið gert með þessum hætti held ég því miður að það hafi komið fyrir að sveitarfélögin hafi kannski ekki lagt oft og tíðum eins mikla áherslu á að halda uppi fullri atvinnu í sveitarfélögum sínum af því að menn hafa séð eftir þeim fjármunum sem þeir hafa sent suður í Atvinnuleysistryggingasjóðinn.
    Það hefur verið afstaða okkar framsóknarmanna lengi að það væri röng sú leið sem valin hefði verið, sem mér sýnist að ríkisstjórnin sé núna að komast að niðurstöðu um og jafnvel búin en forsrh. svarar því á eftir, að ná samkomulagi um við sveitarfélögin þá hefur hún í samræmi við það frv. sem við þrír þingmenn Framsfl. fluttum á síðasta þingi um að þessum fjármunum skyldi ráðstafað á grundvelli þess sem sveitarfélögin sjálf kysu að hafa en hætt skyldi að draga þessa fjármuni inn í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Ég fagna því ef þetta er réttur skilningur.
    Nýsköpun í atvinnulífi og markaðssókn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að treysta enn frekar undirstöður íslensks atvinnulífs og skapa fleiri störf mun ríkisstjórnin leggja fram frv. um nýsköpun í atvinnulífinu.``
    Á fundi í efh.- og viðskn. í morgun kom fram að uppi væru hugmyndir um að gera breytingar á Iðnþróunarsjóði, og spyr ég forsrh. hvort ekki sé það rétt með farið hjá þeim mönnum er þar mættu. Ég held að þarna sé um skynsamlega hluti að ræða og vonast til að hugmyndin sé að breyta Iðnþróunarsjóði í nýsköpunarsjóð og fagna því að ríkisstjórnin skuli í hafa tekið beint upp úr flokksþingssamþykktum Framsfl. sem haldið var á Hótel Sögu 25.--27. nóvember sl. sem var undir yfirskriftinni ,,Fólk í fyrirrúmi`` en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Breytt hlutverk Iðnþróunarsjóðs. Í tengslum við þá breytingu sem stendur fyrir dyrum og eignarhald á Iðnþróunarsjóði þegar sjóðurinn færist alfarið á íslenskar hendur vill Framsfl. að Iðnþróunarsjóður hætti hefðbundnum lánveitingum en verji eigin fé sínu þess í stað til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Þannig verði vaxandi og arðvænlegum fyrirtækjum gert kleift að takast á við ný verkefni, hefja nýja sókn. Iðnþróunarsjóður verði áhættufjármagnssjóður sem fjárfestir í innlendum fyrirtækjum, bæði starfandi og nýjum fyrirtækjum. Ríkið mun leggja fram hluta hagnaðar opinberra lánasjóða til að styrkja nýtt hlutverk Iðnþróunarsjóðs næstu fimm árin.``
    Nú spyr ég hæstv. forsrh.: Er það þetta sem ríkisstjórnin ætlar að gera? Sé svo, þá fagna ég því.
    Síðar í greininni segir: ,,Jafnframt hefur ríkisstjórnin ákveðið sérstakar aðgerðir til þess að auka erlendar fjárfestingar hér á landi.`` Ég spyr hæstv. forsrh.: Hvaða aðgerðir eru það sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til í þessu sambandi?
    Afnám tvísköttunar lífeyrisgreiðslna. Það er reyndar spurning sem hefur kannski komið fram en hefur ekki verið svarað hvernig þau 15% af útborgun lífeyris eru fundin sem þarna er gert ráð fyrir að greiða út. Ég held og er þá ekki sammála hv. þm. Jónu Valgerði áðan að skynsamlegt sé að þetta bara í innskattinum. Ég held að það sé skynsamlegra að taka þetta í útskattinum og gera það með einhverjum þeim hætti sem hér er lýst. Ég ætla hins vegar ekkert að kveða upp úr um það hvort 15% sé nákvæmlega rétt hlutfall en spyr hæstv. forsrh. hvernig þessi 15% séu tilkomin og hvað það sé sem þar liggi að baki.
    Hækkun skattleysismarka. Fleiri hv. þm. hafa gert það að umræðuefni. Þar er hrein og bein blekking á ferðinni, því miður vil ég segja, hæstv. forsrh., vegna þess nú nokkrum dögum fyrir áramót er því lýst yfir að það eigi að hækka skattleysismörkin um 2.150 kr. á árinu 1995 þegar í raun og veru lá fyrir í byrjun október þegar fjárlagafrv. kom fram að þessi hækkun kæmi og væri gert ráð fyrir henni. Enda hefur það verið svo að það hefur verið sjálfstæð ákvörðun þingsins um hver einustu áramót að ákveða hver skattleysismörkin skuli vera. Síðan hefur það hækkað sjálfkrafa um eitt ár. Það hefði auðvitað ekkert gengið fyrir sig með öðrum hætti nú nema að það hafi verið ákvörðun ríkisstjórnarinnar, hún hefði legið fyrir og það hefði verið hennar meining, að í raun og veru að lækka skattleysismörkin eins og gert var fyrir tveimur árum. Því trúi ég varla undir þessum kringumstæðum.
    Hafi það verið tilgangurinn með því útspili, sem hér er sett á blað, að ætla nokkuð að rétta af skattastefnu ríkisstjórnarinnar og þá um leið skattastefnu Sjálfstfl. vil ég enn einu sinni rifja það upp að fyrir alþingiskosningarnar 1991 lofaði Sjálfstfl. þjóðinni og þeim sem kusu flokkinn og reyndar allri þjóðinni að kæmist hann til valda að afloknum kosningum 1991 þá skyldi tekjuskattsprósenta einstaklinga fara niður í 35%. ( Forsrh.: Þetta er ósatt.) Það er ekki ósatt, hæstv. forsrh. Ég hef ítrekað vitnað í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. frá þessum tíma. Því miður er ég ekki með hana hér en ég skal gefa hæstv. forsrh. ljósrit af landsfundarsamþykktinni á eftir. Ég hef áður vitnað í hana undir svipuðum kringumstæðum og nú. Þetta er staðreynd, hæstv. forsrh., og mér þykir svakalegt ef hæstv. forsrh., formaður Sjálfstfl., veit ekki hvað stendur í landsfundarsamþykktum Sjálfstfl. Það væri mjög alvarlegt hafi hann gengið til alþingiskosninga í apríl 1991 án þess að átta sig á því hvað stæði í landsfundarsamþykktum Sjálfstfl. sem voru samþykktar í mars, nokkrum vikum áður. Þar stendur að tekjuskattsprósentan eigi að fara niður í 35% úr 39,79%. Nú er það svo að hún er komin upp í 42% og þá sjá menn hvernig þeir hafa staðið við þau kosningaloforð sem þarna voru gefin. Þetta eru ekki rangfærslur, hæstv. forsrh., ég skal koma ljósriti af þessari landsfundarsamþykkt til forsrh. á eftir. Þar stendur þetta svart á hvítu.
    En fleiri stjórnmálaflokkar lofuðu að grípa til aðgerða til skattalækkana fyrir alþingiskosningarnar 1991 en Sjálfstfl. Það var Alþfl. Hann lofaði því að skattleysismörkin skyldu fara í 80 þús. kr. Þau hafa lækkað á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Því miður er það rétt, hv. þm., að allar yfirlýsingar hjá báðum stjórnarflokkunum, hvort sem þær voru gefnar á landsfundum Sjálfstfl., flokksþingum Alþfl., í kosningabaráttunni eða hjá þessum tveimur flokkum eftir að þeir komu í ríkisstjórn um hvað ætti að gera í skattamálum hafa allar verið sviknar. ( Gripið fram í: Meira að segja einkavæðingin.) Síðan á, virðulegur forseti, að grípa til samstarfs um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Ég fagna því. Hér er óljóst orðalag um það hvað skuli gert en ég les það út úr orðalaginu að mér finnst við vera á réttri leið í þessum efnum. Það á að leita samstarfs við lánastofnanir og þá aðra aðila þar sem skuldir eintaklinganna verða til. Ég held að þarna séu menn á réttri leið. Við framsóknarmenn erum þeirrar skoðunar að breyta eigi Húsnæðisstofnun ríkisins í allsherjar skuldbreytingar- og endurreisnarstöð heimilanna sem hafi það hlutverk að sjá um félagslega íbúðalánakerfið og í raun líka að sjá um þessar skuldbreytingar, en hér

er sagt:
    ,,Gera verður sérstaka úttekt á greiðsluvanda heimilanna hjá lánastofnunum vegna húsnæðisöflunar og verður hún grundvöllur frekari ákvarðana.``
    Hér þarf engrar rannsóknar við. Það liggur alveg skýrt fyrir hverjar ástæður greiðsluerfiðleika heimilanna eru. Þær eru af tvennum toga spunnar. Í fyrsta lagi er það húsbréfakerfið sem þessi ríkisstjórn ber ekki bara ábyrgð á. Það gerði fyrri ríkisstjórn að stórum hluta til. Húsbréfakerfið eru stóru mistökin í þessu öllu saman þar sem lánstíminn er styttur, þar sem vextirnir eru hækkaðir og þar með þyngist greiðslubyrðin.
    Í öðru lagi er það stefna ríkisstjórnarinnar. Það er atvinnuleysið, það eru skattahækkanirnar, það er lækkunin á vaxtabótunum, það er lækkunin á barnabótunum. Stefna ríkisstjórnarinnar bitnar einnig á mörgum einstaklingum sem eru það heppnir að hafa atvinnu og séu þeir það heppnir að geta aukið við vinnu sína er ríkisstjórnin búin að snúa skattkerfinu svo á haus í sinni tíð að af hverjum 100 kr. sem hver einstaklingur getur unnið sér inn til viðbótar við það sem hann hefur í dag borgar hann fyrst 75 kr. til Friðriks Sophussonar, hæstv. fjmrh., áður en hann heldur sínum 25. Hvaða einstaklingur hefur áhuga á að auka vinnu sína undir þessum kringumstæðum? Hættan er sú að menn vinni bara dagvinnuna og þegar henni lýkur fari menn því miður að vinna undir allt öðrum kringumstæðum og hjá þeim er hugsanlega ekkert gefið upp af því sem er verið að gera. Að útbúa skattkerfi sem býður upp á slíka hluti er alveg stórhættulegt. Þess vegna er auðvitað fyrsta verkið, sem þarf að stíga, 10. liðurinn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar að beita sér fyrir, þ.e. aðgerðir gegn skattsvikum. En menn verða að byrja á því að breyta skattkerfinu ef þeir ætla að ná árangri í þessum efnum.
    Nú er því miður, virðulegi forseti, skammt eftir af tíma mínum en ég hefði í örfáum orðum í lokin viljað gera grein fyrir því hvernig við framsóknarmenn vildum og höfum lagt til að skattkerfið sé stokkað upp. Sjálfsagt vilja einhverjir hv. þingmenn koma upp og segja: Ja, er það ekki með því að leggja á matarskattinn, hækka matarskattinn úr 14% í 21, 22, 23%? Nei, það er ekki með þeim hætti. Það er skýr afstaða flokksþings framsóknarmanna að það verður ekki gert. Virðisaukaskattur á matvæli verður ekki hækkaður. ( Forsrh.: Sat formaður flokksins fundinn?) Eins og hæstv. forsrh. varð vitni að fyrir ári flutti formaður flokksins gagnmerkar tillögur, og það gerðum við framsóknarmenn allir, um breytingar á skattkerfinu sem tóku á þeim þáttum að menn ætluðu að reyna að koma í veg fyrir skattsvik. Menn vildu ekki opna kerfið þannig að það byði upp á aukin skattsvik. Tillaga okkar var sú að færa virðisaukaskattinn allan niður og þeim fjármunum, sem þannig hefur sparast á því með því að fara með hann niður í 14% og öðrum aðgerðum sem gripið var til með eignarskattsálagningu á peningalegar eignir og þeim tekjum sem þannig hefðu komið inn, vildum við ráðstafa til þess að hækka barnabætur, hækka vaxtabætur og milljarður stóð þá eftir sem við hefðum getða notað til þess að hækka skattleysismörkin. Þá hefðum við auðvitað tekið tillit til þess að skattsvikin yrðu minni en í stefnir með þeirri leið sem valin var.
    Niðurstaða Þjóðhagsstofnunar varð sú þegar þetta var kannað að þessar aðgerðir leiddu til meiri jöfnuðar milli þeirra í þjóðfélaginu, þeirra ríku og þeirra fátæku, þ.e. það var meiri kjarabót, sem fólst í þessum tillögum, en þeirri tillögu sem ríkisstjórnin ákvað fyrir það fólk sem verst var sett í þjóðfélaginu. Framsóknrmenn urðu hins vegar undir í atkvæðagreiðslum um málið á Alþingi. Við höfðum fyllilega gert okkur grein fyrir því að ekki þýðir að reyna undir þeim kringumstæðum nú að ætla að hækka virðisaukaskattinn. Við erum raunsæismenn og á þeim grunni ákváðum við á flokksþinginu að það skyldi ekki gert. En við viljum taka upp samstarf við aðra stjórnmálaflokka, við aðila vinnumarkaðarins um uppstokkun á skattkerfinu, sem dregur úr þeim háa jaðarskatti sem lýsti áðan, 70--75% jaðarskatti. Við viljum ná samkomulagi um þá hluti við aðila vinnumarkaðarins og aðra stjórnmálaflokka því það er knýjandi mál að koma því hér fram að við getum dregið úr eða lækkað þessa háu jaðarskatta og dregið þá um leið úr skattsvikum.