Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 00:14:41 (2611)


[00:14]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. spurði um túlkun umhvrh. á 29. gr. frv. Það vill nú svo til að ég gegni því starfi þó svo að ég hafi ekki komið nálægt samningu þess ákvæðis en ég tel að þetta ákvæði sé mjög skýrt í gildandi lögum um vernd, friðun og veiðar villtra fugla og villtra spendýra. Það er gert ráð fyrir því í 7. gr. hvernig aflétta skuli friðun en meginreglan í lögunum er friðun villtra dýra. Í ákvæðinu í 12. gr., sem fjallar nokkuð nánar um það hvernig fara skuli með veiðar á mink og ref sé friðun aflétt skv. 7. gr., er gert ráð fyrir því að þar sem umhvrh. veitir leyfi að fengnum tillögum veiðistjóraembættisins til veiða þá skuli viðkomandi sveitarfélagi skylt að ráða sér skotmann ásamt aðstoðarmanni. Þeim er heimilt að veiða á grenjatíma en hins vegar er gert ráð fyrir því að allir sem hafa til þess bær skotleyfi geti veitt utan grenjatíma. Þetta er almenna reglan í gildandi lögum.
    Í 29. gr. frv. hins vegar er sett ákveðin takmörkun. Annars vegar takmörkun með fjárhæðum, 27 millj., og hins vegar frekari takmarkanir þar sem meginreglan er þessi: Í fyrsta lagi, þar sem eru fleiri í sveitarfélagi en 2.000 er eyðing refa og minka alfarið verk sveitarstjórnar, á verksviði hennar, þannig að taki ráðherra ákvörðun um að heimila þar veiðar þá er viðkomandi sveitarfélagi skylt að ráða skotmann og ríkissjóður tekur ekki þátt í greiðslu kostnaðar við eyðingu refa og minka heldur er það alfarið sveitarfélagsins. Þá er einnig annað takmarkandi ákvæði, þ.e. sé verið að ræða um svæði með færri en 2.000 íbúa, virðulegur forseti, þá er gert ráð fyrir því að hæstv. umhvrh. geti beitt þar tiltekinni reglu sem ég hef ekki tíma til að skýra en verð að skýra ef ég mætti veita annað andsvar á eftir svo ég geti varpað ljósi á það mál líka.