Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

56. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 00:18:36 (2613)


[00:18]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. því í sérákvæðinu í 12. gr. segir: ,,Þar sem umhvrh. ákveður, að fengnum tillögum veiðistjóraembættisins, að nauðsynlegt sé að láta veiða refi til að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum er sveitarstjórn skylt að ráða skotmann til grenjavinnslu`` o.s.frv. Ég tel því að sé ákvörðun umhvrh. tekin þá sé skylt að sjá til þess að eyðing minka og refa fari fram á þessu svæði. Sveitarstjórn sé skylt að ráða til þess skotmann en ríkinu sé ekki skylt að taka þátt í kostnaði.
    Seinna atriðið sem ég vildi víkja að og var ekki búinn að útskýra að fullu vegna tímaskorts áðan er: Hvað varðar sveitarfélög þar sem íbúar eru færri en 2.000 er umhvrh. jafnframt heimilt að ákveða að ríkissjóður taki ekki þátt í kostnaði við minkaveiðar, grenjaleit og grenjavinnslu. Umhvrn. á að auglýsa fyrir 1. maí hvaða landsvæði þetta eru og þá er þessum litlu sveitarfélögum heimilt að fella niður grenja- og minkaleitir á svæðinu vegna þess að ríkissjóður tekur ekki lengur þátt í kostnaðinum þó svo að leyfi hafi verið veitt eða umhvrh. hafi áður ákveðið að eyðing skuli fara þar fram. Ég tel alveg ljóst að í sveitarfélögum með fleiri en 2.000 íbúa sé til þess ætlast, ef umhvrh. tekur ákvörðun um að þar skuli fara fram veiðar, að skotmaður sé ráðinn og að sveitarfélagið beri af því allan kostnað. Undantekningu sé hins vegar hægt að gera á svæðum sem umhvrh. tekur frekari ákvarðanir um, á landsvæðum utan við 2.000 íbúa mörkin og þar sé sveitarfélagi heimilt að fella niður skylduveiði. Þetta er minn skilningur á þessu ákvæði.