Fjárlög 1995

57. fundur
Þriðjudaginn 13. desember 1994, kl. 21:16:58 (2656)


[21:16]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Austurl. flutti hér ágæta ræðu að venju og var málefnalegur. En það var eitt sem vakti athygli mína og það var að hann vitnaði m.a. í ræðu mína fyrr í kvöld og að ég hefði bent á þá staðreynd að halli á ríkissjóði leiddi til skuldasöfnunar eins og alþekkt er. En á sama tíma og hann vakti athygli á þessu og gagnrýndi í rauninni mjög harkalega hallann á ríkissjóði þá taldi hann vanta fjárfestingu. Og hvernig skyldum við nú koma af stað fjárfestingu nema því aðeins að auka hallann á ríkissjóði og efna til meiri lántöku? Ég get því ekki séð, hæstv. forseti, að þetta komi heim og saman og vildi

fá skýringu á þessu hjá hv. þm.
    Einnig vildi ég nefna það sem fram kom hjá hv. 2. þm. Austurl. varðandi færslu grunnskólans. Það hefur komið fram hjá ýmsum að menn telja að vanti í fjárlagafrv. fyrir næsta ár færslu á grunnskólanum. Þetta er grundvallarmisskilningur. Það er ekki gert ráð fyrir því í fjárlögum að lækkuð séu framlög ríkisins til grunnskólans fyrr en lög hafa verið sett um þann flutning. Þess vegna er mjög óeðlilegt t.d. það sem hefur komið fram í gagnrýni samtakanna Heimili og skóli og hv. 2. þm. Austurl. að fjárveitingar eigi að vera til sveitarfélaga í því frv. til fjárlaga sem hér er til umfjöllunar. En ég vil að þetta komi hér fram. Það er ekkert óeðlilegt við það þó að í fjárlagafrv. fyrir næsta ár komi ekki fram lækkun á framlögum ríkisins vegna þess að grunnskólinn verði fluttur, það er misskilningur.