Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 15:57:13 (2760)


[15:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er að sjálfsögðu ekki verið að biðja hv. þm. að vera forstjóra einhverrar söltunarstöðvar. Þó ég viti að hann sé manna hæfastur til slíkra verka þá er ekki verið að fara fram á það. Það er verið að bjóða upp á samstarf til að hægt sé að samræma skattlagningu eigna og eignatekna með því að taka upp fjármagnstekjuskatt. Það er verið að benda á nauðsyn þess að víðtæk samstaða geti tekist um lagasetningu og það er miðað við að hægt sé að taka hana upp um önnur áramót. Þetta eru þau skilaboð sem koma fram í bréfi til hv. þm. undirrituðu af mér. Ég skil hv. þm. þannig að hann telji eðlilegt að þetta mál fari í slíkt samstarf enda er alls ekki verið að bjarga núv. stjórnarflokkum frá einu eða

neinu. Þeir geta vel komið sér saman um þennan skatt, þeir geta komið sér saman um hvaða aðferð á að nota, en þeim þykir óeðlilegt að þeir séu að setja lög á vorþinginu sem eiga að taka gildi um önnur áramót þegar ný ríkisstjórn hefur tekið við völdum. Þess vegna er þessi leið farin. Ég vona að hv. þm. skilji að það er ekki verið að biðja hann um að hjálpa til við að salta þetta mál í tunnu og pækla, heldur þvert á móti að taka þátt í eðlilegum vinnubrögðum vegna þess að þessi skattur tekur ekki gildi fyrr en á tímabili nýrrar ríkisstjórnar.
    Ég hef af því bitra reynslu frá því þegar ég tók við í fjmrn. að hafa fengið í arf skatta og gjöld sem ákveðin voru af fyrri ríkisstjórn og tóku ekki gildi fyrr en eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið. Það voru skattar og gjöld sem voru ákveðin í tíð þeirrar ríkisstjórnar án alls samráðs við Sjálfstfl. Það viljum við helst ekki að endurtaki sig.