Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:02:29 (2841)


[12:02]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum bæta því við að ég held að það sé tvímælalaust til bóta að lögfesta ákvæði af þessu tagi og það skipti kannski í sjálfu sér meira máli en nákvæmlega hvernig frá því er gengið að staðfestur verði sá vilji löggjafans að takmarka möguleika manna í þessum efnum. Hvernig sem á það er litið þá hlýtur að felast í því visst aðhald frá því sem nú er að það séu þó fyrir hendi ákvæði í lögum sem geta komið til og takmarka möguleika manna til þess að standa endurtekið í því að gera fyrirtæki gjaldþrota og hverfa frá þeim málum þannig og stofna til rekstrar á nýjan leik.
    Það sem vakti sérstaklega fyrir efh.- og viðskn. var auðvitað það að ganga frá þessu þannig að það stæði í lögunum. Það var rætt í nefndinni hvort kannski væri skynsamlegra að fresta því með öllu að reyna að taka á þessu máli og vinna það betur, m.a. með vísan til þess að frv. liggur fyrir þinginu um allt öðruvísi aðferð í þessu sambandi, þ.e. að setja upp sérstakt kerfi til þess að dæma menn í atvinnurekstrarbann ef þeir hafa misnotað aðstöðu sína með einhverjum hætti. En menn urðu sammála um það í nefndinni að það væri mikilvægt að fella þetta ákvæði ekki út úr frv. því þau skilaboð vildu menn að sjálfsögðu ekki senda út í þjóðfélagið að menn felldu út úr frv. þá tilraun sem í því fólst til þess að taka eitthvað á því máli. Ég held að það sé kannski að lokum mergurinn málsins að það er staðfestur vilji til þess að taka á þessu. Það má svo lengi deila um hvernig það er best gert.