Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:54:21 (2854)


[12:54]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Aðeins örstutt. Ég fékk ekki svar við minni spurningu að því er varðaði iðgjaldið. Þó að húseigandi geti óskað eftir endurmati á brunabótamatinu þá var ég ekki að tala um það því að brunabótamatið er miðað við endurbyggingarverð. En þegar um er að ræða að það geti verið breyting á þessu þá finnst mér að það verði að vera mjög ótvíræður réttur þeirra sem eru úti á landi, og það gildir reyndar um Reykjavík líka, að þeir séu ekki að borga há iðgjöld í langan tíma og síðan fá þeir ekki þá upphæð miðað við það iðgjald sem þeir hafa greitt. Það er það sem ég er að tala um. Ég er ekki að tala um að brunabótamatið sé ekki í sjálfu sér rangt eða það sé einhver ágreiningur um það vegna þess að ég hugsa að það sé yfirleitt nokkurn veginn í samræmi við endurbyggingarmat hússins eins og það er á hverjum stað. Auðvitað getur verið misbrestur á því eins og alltaf er en það á að vera meginreglan. Ég er ekki að tala um það heldur að fólki sé ljóst að það er að greiða iðgjald sem getur verið svo og svo hátt en er ekki í samræmi við það sem það fær ef um tjón verður að ræða. Og að það séu tvö til þrjú tilvik á ári sem þetta getur átt við um þykir mér nokkuð mikið. Ég veit ekki hversu mörg hús brenna á ári og þetta gæti hugsanlega átt við um en það þætti mér fróðlegt að vita því að mér finnst tvö til þrjú tilvik nokkuð hátt því að ég veit ekki til að það sé svo algengt að hús brenni. Tvö til þrjú tilvik geta verið há prósenta ef út í það er farið.