Samningur um breytingar á tilteknum samningum EFTA-ríkjanna

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 17:44:32 (2904)[17:44]

     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var samþykktur á Alþingi var ljóst að fljótlega þyrfti að gera þessar breytingar sem hér er verið að gera í ljósi þess að nokkrar þjóðir höfðu þá þegar sótt um aðild að Evrópusambandinu eða Evrópubandalaginu eins og það hét þá, t.d. var ljóst á þeim tíma að Austurríkismenn mundu gerast aðilar að Evrópusambandinu. Í sjálfu sér er það eðlilegt framhald af því sem nú hefur gerst að þarna verður að gera ákveðnar breytingar. Það eru aðeins nokkrar athugasemdir sem ég vildi gera við þáltill.
    Í fyrsta lagi finnst mér nokkuð óeðlilegt að ekki sé tekið fram í þeirri þáltill., og þá væntanlega þál. ef hún verður óbreytt frá Alþingi, hvaða samninga sé um að ræða, það sé ekki verið að spara það að segja að það sé verið að tala um samning um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og breytingar á þeim samningum. Það er nú bara formsins vegna sem ég geri athugasemd við þetta og ég beini því til hv. utanrmn. og þeirra nefndarmanna sem eru í salnum að ekki séu spöruð orðin varðandi ályktunina þegar hún kemur hér, að það sé sagt fullum orðum hvaða samningum verið er að breyta en ekki, eins og orðalagið er, á tilteknum samningum. Þetta eru ekki stór atriði en þó finnst mér það stór atriði þegar það kemur hér til afgreiðslu að tekið sé fram fullum orðum hvað við er átt.
    Ég geri að öðru leyti ekki athugasemd við þessa samningsgerð. Ég býst við að þetta hafi verið í undirbúningi, þ.e. að dómurum sé fækkað. Það er ákaflega eðlilegt varðandi dómstólinn og eins í eftirlitsstofnun EFTA sem þarf að fækka í miðað við stöðuna eins og hún er núna.
    Það er aðeins eitt atriði sem mér finnst nokkuð sérkennilegt en kannski er ekki hægt að komast hjá því, að það séu 11 þingmenn sem Alþingi hefur núna möguleika á að tilnefna í þingmannanefnd EFTA. Þetta tel ég aldeilis óraunhæft og kannski er ekki hægt að komast hjá því að þetta sé þannig þar sem EES-samningurinn sjálfur gerir ráð fyrir að um sé að ræða 33 þingmenn frá EFTA-hliðinni og þess vegna sé ekki hægt að breyta þessu nema breyta sjálfum samningnum þannig að kannski eru þetta eingöngu formsatriði en þarna sést hvers lags klúður það er að vera að setja þetta með þeim hætti í sjálfan EES-samninginn þegar ljóst var þegar hann var hér til umræðu að þetta mundi ekki ganga eftir að óbreyttu.
    Ég ætla ekki að gera frekari athugasemdir og vil ítreka að mín aðalathugasemd er við texta þáltill. eins og hann stendur hérna.